Fréttir | 18. okt. 2017

Norðurþing, fyrri dagur

Forseti og forsetafrú heimsækja Norðurþing í opinberri heimsókn sem stendur dagana 18. og 19. október. Dagskrá heimsóknarinnar var þéttskipuð eins og lýst var í fréttatilkynningu. Dagurinn hófst að Hveravöllum í Reykjahverfi þar sem skoðuð var lýsingarræktun á tómötum og agúrkum. Næst var leikskólinn Grænuvellir heimsóttur og rætt við börn og starfsfólk; þá gengið um skrúðgarð Húsvíkinga og spjallað við fulltrúa kvenfélagsins á staðnum og komið við í Árholti þar sem Hulda Þórhallsdóttir hefur búið til margra áratuga. Forsetahjónin skoðuðu næst Borgarhólsskóla og áttu þar ánægjulega söngstund með nemendum og starfsfólki en í kjölfarið var Framhaldsskólinn á Húsavík heimsóttur og flutti forseti þar stutt ávarp eins og víðar. Á Húsavíkurhöfða voru framkvæmdir við sjóböð skoðaðar, þá komið við í Stjórnsýsluhúsinu, Safnahúsinu og Húsavíkurkirkju. Einnig komu hjónin í Helguskúr við höfnina og ræddu þar við gamalreynda sjóara en þaðan lá leiðin í Hvalasafnið þar sem forseti opnaði nýja deild og sótti málstofu með ferðaþjónustuaðilum á Húsavík þar sem rætt var um tækifæri og áskoranir sem framundan eru á þeim vettvangi. Að síðustu var litið inn í Könnunarsögusafnið en um kvöldið sóttu forseti og forsetafrú Fjölskylduhátíð í íþróttahöllinni á Húsavík þar sem heimamenn buðu upp á fjölbreytta tónlistardagskrá auk þess sem forseti flutti hátíðarræðu.

Myndasafn frá fyrra degi heimsóknarinnar.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar