• Forseti ávarpar hátíðarfund bæjarstjórna í Grindavík í tilefni 50 ára afmælis bæjarins.
  • Bæjarstjórn Grindavíkur ásamt forsetahjónum á 50 ára kaupstaðarafmæli Grindavíkur.
  • Forseti ávarpar hátíðarfund bæjarstjórna í Grindavík í tilefni 50 ára afmælis bæjarins.
  • Fannar Jónasson bæjarstjóri og Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, ásamt forsetahjónum.
  • Forsetahjón kynna sér áhrif eldsumbrotanna á innviði Grindavíkurbæjar, í fylgd Fannars Jónassonar bæjarstjóra og Otta Rafns Sigmarsosnar björgunarsveitarmanns.
  • Forsetahjón skoða gosstöðvarnar í Sundhnúkagígsröð ásamt Fannari Jónassyni bæjarstjóra, í fylgd Boga Adolfssonar og Otta Rafns Sigurðssonar, félögum úr björgunarsveitinni Þorbirni.
  • Forsetahjón skoða gosstöðvarnar í Sundhnúkagígsröð ásamt Fannari Jónassyni bæjarstjóra, í fylgd Boga Adolfssonar og Otta Rafns Sigurðssonar, félögum úr björgunarsveitinni Þorbirni.
  • Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður hjá Þorbirni, sýnir forsetahjónum hvar hraunið hætti að renna inn í byggð Grindavíkur.
  • Forseti ásamt átta Grindvíkingum sem heiðruð voru á 50 ára afmæli Grindavíkur fyrir framlag þeirra til menningarlífs í bænum gegnum tíðina.
  • Forsetahjón ræða við Grindvíkinga á 50 ára afmæli bæjarins.
  • Gestir dagdvalar Víðihlíðar í Grindavík með forseta á Bessastöðum.
Fréttir | 10. apr. 2024

Grindavík 50 ára

Forseti og forsetafrú heimsækja Grindavík í tilefni þess að hálf öld er liðin frá því að sveitarfélagið hlaut kaupstaðarréttindi. Eins og stendur er bærinn nær auður vegna hættustigs af völdum eldsumbrotanna á Reykjanesskaga undanfarna mánuði. Í tilefni dagsins var hins vegar efnt til hátíðarfundar bæjarstjórnar í Gjánni í Grindavík. Þar voru heiðursviðurkenningar veittar og þakkir færðar sjálfboðaliðum sem styrkt hafa stoðir samfélagsins í Grindavík.

Þar að auki flutti forseti ávarp á hátíðarfundinum. Flutti hann Grindvíkingum heillakveðjur og árnaðaróskir frá þjóðinni allri. Hann nefndi meðal annars að í embættistíð sinni hefði hann reglulega heimsótt Grindavík. Í hvert sinn hefði hann fundið þann kraft, þá elju og þá samkennd sem ríkti í bænum. Þann kjark megi enn finna en síðustu misseri hafi Grindvíkingar þó þurft að þola miklar þrautir. Mannslíf hafi glatast í bænum, eignatjón gríðarlegt og framtíðin í algjörri óvissu. Lokaorð forseta voru svohjóðandi:

„Við vitum ekki hvenær eldsumbrotum og jarðhræringum linnir hér í grennd. Við vitum hins vegar með fullri vissu að við verðum að tryggja að Grindvíkingar geti á ný haldið heimili og höndlað hamingjuna, að Grindvíkingar geti áfram látið gott af sér leiða í eigin þágu og þjóðfélagsins alls. Þetta skulum við gera saman, við Íslendingar. Við skulum ekki gefast upp." Ávarp forseta í heild má lesa hér.

Að fundi loknum fóru forsetahjón um Grindavík í fylgd með félögum í björgunarsveitinni Þorbirni og kynntu sér afleiðingar eldsumbrotanna á Reykjanesskaga á innviði bæjarins.

Síðdegis tók forseti á móti gestum dagdvalarinnar Víðihlíð í Grindavík. Líkt og aðrir Grindvíkingar hafa þau ekki getað búið á eigin heimili þar síðustu mánuði en heimsóttu Bessastaði á 50 ára kaupstaðarafmælinu, þáðu kaffiveitingar og kynntu sér sögu staðarins.

Pistill forseta: Til hamingju með afmæli, Grindvíkingar!

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar