Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna voru kynntar í dag, á alþjóðlegum degi kennara. 5. október. Embætti forseta Íslands er meðal þeirra aðila sem að verðlaununum standa, en Ólafur Ragnar Grímsson stofnaði til þeirra árið 2005. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum, auk sérstakra hvatningarverðlauna:
A. Skólar og menntastofnanir
Árskóli á Sauðárkróki fyrir forystu um fjölbreytt og faglegt skólaþróunarstarf sem hefur verið öðrum skólum góð fyrirmynd.
Fellaskóli í Reykjavík fyrir fjölmenningarlega og skapandi kennsluhætti þar sem byggt er á virðingu fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika.
Listasafn Íslands fyrir öflugt fræðslustarf og að gefa út Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi, metnaðarfullt og framsækið námsefni í mynd- og menningarlæsi sem nýtist ólíkum nemendahópum á öllum skólastigum.
B. Kennarar
Dóra Guðrún Wild kennari við leikskólann Hlaðhamra í Mosfellsbæ, fyrir faglega og metnaðarfulla leikskólakennslu, meðal annars útinám og fyrir að auðga líf barna í Mosfellsbæ með fjölbreyttu lista- og menningarstarfi.
Guðrún Sigurðardóttir kennari við leikskólann Gimli í Reykjanesbæ fyrir einstaka fagmennsku og ástríðu í leikskólastarfi þar sem áhersla er lögð á jákvæð samskipti, styðjandi umhverfi, samkennd og traust.
Hrafnhildur Sigurðardóttir kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ fyrir þróun fjölbreyttrar og hugmyndaríkrar útikennslu, fjölbreyttar valgreinar og leiðsögn við kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.
Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir kennari við Grunnskóla Borgarfjarðar fyrir þróunarstarf við að innleiða námskrá í kynheilbrigðisfræðslu með áherslu á sjálfs- og líkamsímynd.
C. Þróunarverkefni
Menntun hugar og hjarta – nemandinn sem manneskja. Þróunarverkefni í Háteigsskóla þar sem markvisst unnið að því að efla sterka tilfinninga-, samskipta- og sjálfsþekkingargreind.
Snjallræði – þróunarverkefni í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ. Heildstæð nýsköpunarkennsla sem nær frá leikskólastigi til unglingastigs.
Sviðslistabraut við Menntaskólann á Akureyri. Kjörnámsbraut sem miðar að því aðveita nemendum innsýn í töfraheima sviðslistanna og hinar ýmsu hliðar og störf innan sviðslistaheimsins.
D. Iðn- og verkmenntun
Rafmennt fyrir þróun sveigjanlegs og einstaklingsmiðaðs náms í raf- og tæknigreinum.
Verkmenntaskóli Austurlands fyrir að efna til samstarfs við grunnskólana í Fjarðabyggð um framboð á fjölbreyttum verklegum valgreinum.
Þröstur Jóhannesson kennari við Menntaskólann á Ísafirði fyrir þróun vandaðs verknáms með áherslu á nútímatækni og sjálfbærni.
Íslensku menntaverðlaunin verða veitt á Bessastöðum og sjónvarpað á RÚV þann 6. nóvember. Sjá nánar um Íslensku menntaverðlaunin.