Forsetahjón heimsækja Árnasafn við Kaupmannahafnarháskóla í fylgd með Friðriki X. Danakonungi og Mary drottningu.
Á safnið komu einnig Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Christina Egelund, mennta- og vísindamálaráðherra Danmerkur, sem undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um handritasafn Árna Magnússonar. Yfirlýsingin kveður á um leiðir til að auka þekkingu á handritunum og efla áframhaldandi samstarf og samvinnu landanna um varðveislu þeirra. Viðburðurinn var liður í tveggja daga ríkisheimsókn forseta Íslands til Danmerkur.
Sjá einnig myndasafn frá ríkisheimsókn til Danmerkur.
Fengu að skoða öryggishvelfinguna
Handritasafn Árna Magnússonar er einstakt á heimsvísu og hefur að geyma heimildir sem eru að miklu leyti undirstaða að miðaldasögu Norðurlanda. Handritasafnið er varðveitt í tveimur söfnum í tveimur löndum, í Árnasafni í Kaupmannahöfn og á Árnastofnun í Reykjavík. Handritasafnið var í heild sinni sett á sérstakan varðveislulista UNESCO árið 2009 sem kallast Minni heimsins sem undirstrikar mikilvægi þess fyrir heimsbyggðina.
Forsetahjón og konungshjón fengu kynningu á safninu og sagði Annette Lassen, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, viðstöddum frá sagnaarfinum sem þau varðveita og sagði frá efnisþáttum í Njáls sögu. Þá fengu þjóðhöfðingjarnir og makar þeirra einnig að skoða öryggishvelfinguna þar sem handritin eru varðveitt.
Á undanförnum árum hafa Ísland og Danmörk unnið að leiðum til þess að gera handritaarfinum hærra undir höfði. Nánar má lesa um efni viljayfirlýsingarinnar á vefsíðu menningar-og viðskiptaráðuneytisins.