Forsetahjón heimsækja Jónshús í Kaupmannahöfn ásamt dönsku konungshjónunum, Friðriki X. konungi og Mary Elizabeth drottningu. Var þetta fyrsta heimsókn dansks þjóðhöfðingja í Jónshús.
Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, tók á móti hinum opinberu gestum í Jónshúsi ásamt Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, Auði Elvu Jónsdóttur, formanni stjórnar Húss Jóns Sigurðssonar, og Höllu Benediktsdóttur, forstöðumanni hússins. Auk opinberra sendinefnda var forseta danska þingsins, Søren Gade, boðið í Jónshús af þessu tilefni.
Forseti Alþingis og Halla Benediktsdóttir, forstöðumaður Jónshúss, fluttu gestum ávarp og greindu frá hlutverki og starfsemi hússins sem hefur verið miðstöð félagsstarfs Íslendinga á Hafnarslóð í meira en hálfa öld. Jafnframt ávörpuðu samkomuna fulltrúar félaga íslenskra kvenna í dönsku atvinnulífi, þær Jórunn Einarsdóttir, formaður FKA í Danmörku, og Jóhanna Edwald, formaður Katla Nordic. Að því loknu skoðuðu forsetahjónin og konungshjónin sýningu endurgerðs heimilis Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur og rituðu í gestabók Jónshúss.
Að dagskrá lokinni bauð forseti Alþingis hinum opinberu gestum og sendinefndum til hádegisverðar í Jónshúsi og karlakórinn Hafnarbræður flutti lag áður en forsetahjón og konungshjón kvöddu gestgjafa.
Heimsóknin í Jónshús var liður í tveggja daga ríkisheimsókn forseta til Danmerkur.
Myndasafn: Ríkisheimsókn til Danmerkur.