Forseti tekur á móti þátttakendum í þingi Norðurlandaráðs 2024, sem fram fer í Reykjavík. Forseti bauð til hádegisverðarmóttöku á Bessastöðum, áður en þingið var sett síðdegis í Ráðhúsi Reyjavíkur.
Meðal gesta voru Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Mette Frederiksen, forsætirsáðherra Danmerkur, Jonas Gahr Störe, forsætisráðherra Noregs, Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar og Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands. Þingforsetar Norðurlandanna voru einnig meðal gesta sem og almennir þingmenn, samstarfsráðherrar Norðurlandanna og utanríkisráðherrar Danmerkur, Færeyja, Grænlands og Svíþjóðar. Þá var Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtogi lýðræðishreyfingarinnar í Belarús, sérstakur gestur, en hún verður ræðumaður á þinginu. Fyrr um daginn átti forseti fund með Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, sem einnig er sérstakur gestur Noðurlandaráðsþings í ár.
Í ávarpi sínu bauð forseti gesti velkomna til Íslands og fagnaði mikilvægi norræns samstarfs. Þá ræddi hún Norðurlöndin sem fyrirmynd á sviði kynjafnréttis og endurnýjanlega orku og hvatti til frekara samstarfs á þeim sviðum. Að lokinni ræðu forseta flutti stúlknakór Kárnsesskóla tvö lög fyrir gesti í móttökusal Bessastaða. Íslenska kokkalandssliðið matdreiddi fyrir gesti.
Þing Norðurlandaráðs fer með æðsta ákvörðunarvaldið innan norræns þingsamstarfs. Þetta er einstakur vettvangur fyrir svæðisbundið samstarf þar sem saman koma bæði þingfulltrúar Norðurlandaráðs og ráðherrar úr ríkisstjórnum norrænu landanna.