• Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
  • Ljósmyndir: Samgöngustofa/Einar Magnús Magnússon
Fréttir | 17. nóv. 2024

Minningardagur umferðarslysa

Forsetahjón sækja minningarathöfn um þau sem látist hafa í umferðinni og flutti forseti ávarp. Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað fórnarlömbum umferðarslysa þriðja sunnudag í nóvember og eru viðburðir haldnir árlega um allan heim af því tilefni. Á Íslandi fara táknrænar minningarstundir fram hringinn í kringum landið og er löng hefð fyrir slíkri athöfn við þyrlupallinn hjá Landspítalanum í Fossvogi í Reykjavík, þar sem forsetahjón tóku þátt.

Í ár var kastljósi dagsins beint sérstaklega að hættunni sem getur skapast þegar ökumenn sofna eða dotta undir stýri vegna þreytu. Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni.

Í ávarpi sínu vakti forseti athygli á þeirri staðreynd að þótt banaslysum í umferðinni fari fækkandi til lengri tíma litið þá hafi samanlagður fjöldi látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni í fyrra verið 237 og þar með sá mesti á þessari öld. „En það er ekki tölfræðin sem er mér efst í huga í dag, heldur djúp samúð með öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna ótímabærra dauðsfalla og skelfilegra afleiðinga alvarlegra umferðarslysa,“ sagði forseti og þakkaði um leið viðbragðsaðilum fyrir þeirra ómetanlegu störf á vettvangi slysa. Loks bað forseti viðstadda og þjóðina alla að minnast hinna látnu með einnar mínútu þögn.

Ávarp forseta má lesa hér.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra flutti ávarp að lokinni mínútu þögn. Einnig tóku til máls þau Lína Þóra Friðbertsdóttir og Jón Sigmundsson sem bæði sögðu frá reynslu sinni af alvarlegum umferðarslysum.

Að minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan, Vegagerðin og ÖBÍ réttindasamtök.

Pistill forseta: Sýnum ábyrgð í umferðinni.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar