Forseti afhendir Frikkann, heiðursverðlaun Átaks - félags fólks með þroskahömlun, við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsinu. Frikkinn er veittur fólki sem hefur barist fyrir sjálfstæði fólks með þroskahömlun og stuðlað að samfélagi án aðgreiningar. Handhafar Frikkans eru um leið útnefndir heiðursfélagar Átaks.
Í ár komu verðlaunin í fyrsta sinn í hlut tveggja einstaklinga, þeirra Ágústu Björnsdóttur og Ólafs Snævars Aðalsteinssonar.
Ágústa Björnsdóttir er verkefnastjóri starfstengds diplómunáms fyrir fólk með þroskahömlun við Háskóla Íslands. Í umsögn valnefndar segir að framlag hennar til nýsköpunar í menntun hafi rutt brautina fyrir fólk með ólíka styrkleika, bæði í háskóla og á vinnumarkaði.
Ólafur Snævar Aðalsteinsson sviðslistamaður er að sögn valnefndar fæddur til að stíga á svið og hefur með störfum sínum búið til pláss fyrir fjölbreyttar listir sem brjóta niður múra og skapa ný svið.
Verðlaunin Frikkinn eru kennd við Friðrik Sigurðsson sem varð fyrsti heiðursfélagi Átaks árið 2015 vegna framlags hans til stuðnings því að félagið yrði til.