Forseti afhendir Íslensku bjartsýnisverðlaunin við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Í ár voru þau veitt Unnsteini Manuel Stefánssyni, tónlistamanni og handritshöfundi.
Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari Bjartsýnisverðlaunanna, sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981, en stofnað var til þeirra í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur. Þau eru í senn viðurkenning og hvatning fyrir íslenska listamenn og leitast er við að gæta jafnræðis milli listgreina. Frá árinu 2000 hefur ÍSAL álverið í Straumsvík verið bakhjarl verðlaunanna og fá handhafar þeirra áletraðan verðlaunagrip úr áli frá ÍSAL auk einnar og hálfrar milljónar króna í verðlaunafé.
Margverðlaunaður fyrir fjölbreytt störf
Í umsögn dómnefndar segir að Unnsteinn Manuel hafi á ferli sínum sýnt fram á ótvíræða listræna hæfileika og fjölhæfni. Hann hafi fundið farvegi til þess að þroskast og takast á við nýjar áskoranir og fjölbreytt verkefni og taki þátt bæði í menningartengdum verkefnum í ýmsum listgreinum en leggi jafnframt mikilvægum góðgerðar- og samfélagsmálum lið. „Þar á ofan miðlar hann af þekkingu sinni og reynslu til yngri kynslóða. Unnsteinn Manuel Stefánsson er verðugur fulltrúi Íslensku bjartsýnisverðlaunanna árið 2024,“ segir í umsögninni.
Unnsteinn hefur komið víða við heimi lista á Íslandi. Hann hefur lengst af verið þekktastur sem tónlistarmaður og hefur meðal annars starfað með hljómsveitinni Retro Stefson frá árinu 2006 auk þess að gefa út tónlist undir eigin nafni og í samstarfi við fleiri. Undanfarin ár hefur hann menntað sig á sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands og handritaskrifum fyrir sjónvarp í Kvikmyndaskólanum í Berlín.
Hann hefur komið að framleiðslu, stjórn og umsjón efnis fyrir sjónvarp um árabil þar með taldar stórar alþjóðlegar sjónvarpsútsendingar frá Íslandi. Á síðustu misserum hefur hann tekið þátt í ýmsum verkefnum á sviði leikhúsa sem tónskáld, tónlistarstjóri, hljóðhönnuður og handritshöfundur og er um þessar mundir að vinna að sýningunum Lukku í Þjóðleikhúsinu og Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu.
Unnsteinn er margverðlaunaður fyrir störf sín í listum. Hann hefur þrisvar sinnum hlotið Edduverðlaunin og jafnoft Íslensku tónlistarverðlaunin. Einnig hlaut hann Grímuverðlaun árið 2023. Auk þess að vera sjálfur virkur listamaður á ýmsum sviðum hefur hann lagt áherslu á að miðla þekkingu sinni til yngri kynslóða. Frá árinu 2007 hefur hann hefur kennt börnum á grunn- og framhaldsskólastigi tónlist auk þess að taka virkan þátt í verkefnum sem tengjast ungu fólki og tónlist. Frá árinnu 2012 hefur hann verið dómari og virkur þátttakandi í Upptaktinum í Hörpu, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna. Hann kennir námskeið í skapandi hugsun við Háskólann á Bifröst og hefur komið að fleiri verkefnum á sviði menntunar fyrir ungt fólk.
Unnsteinn hefur lagt ýmsum góðgerðar- og samfélagslegum verkefnum lið og var m.a. verndari UN Women á Íslandi, situr í stjórn Barnaheilla og var í ráðgjafarnefnd Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur fyrir hönd borgarstjóra Reykjavíkur.
Dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna skipa: Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist.