• Norsku konungshjónin (ljósmynd: Jorgen Gomnæs) og forsetahjón Íslands (ljósmynd: Aldís Pálsdóttir).
  • Krónprinshjón og konungshjón Noregs. Ljósmynd: Jorgen Gomnæs/Det kongelige hoff
Fréttir | 07. apr. 2025

Ríkisheimsókn til Noregs

Forsetahjón hefja á morgun þriggja daga ríkisheimsókn sína til Noregs þar sem farið verður bæði til Óslóar og Þrándheims. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, taka einnig þátt í dagskrá heimsóknarinnar ásamt opinberri sendinefnd og viðskiptasendinefnd.

Þrjár kynslóðir konungsfjölskyldunnar taka á móti

Ríkisheimsóknir eru æðsta form diplómatískra samskipta milli ríkja. Markmið heimsóknarinnar er að styrkja enn frekar söguleg tengsl Íslands og Noregs og vinna að sameiginlegum hagsmunum þjóðanna, meðal annars á sviði varnarmála, menningar og bættrar geðheilsu.

Gestgjafar forsetahjóna í Noregi eru Haraldur V. konungur og Sonja drottning ásamt Hákoni krónprins og Mette-Marit krónprinsessu. Að auki tekur elsta dóttir þeirra, Ingrid Alexandra prinsessa, þátt í sinni fyrstu ríkisheimsókn og verða því þrjár kynslóðir norsku konungsfjölskyldunnar viðstaddar móttökuathöfn forsetahjóna við Óslóarhöll.

Fulltrúar 40 íslenskra fyrirtækja með í för

Samhliða heimsókninni fer viðskiptasendinefnd til Noregs með fulltrúum um 40 íslenskra fyrirtækja sem sækja þar hluta dagskrárinnar með konungi og forseta ásamt fulltrúum úr norsku viðskiptalífi. Viðskiptasendinefndin er á vegum Íslandsstofu í samvinnu við Innovation Norway, Norsk-íslenska viðskiptaráðið, Grænvang, Íslenska sjávarklasann og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Megináhersla viðskiptadagskrárinnar er á eflingu tvíhliða samstarfs þjóðanna með því að styðja við sjálfbæra nýsköpun í bláa og græna hagkerfinu, þ.e. í sjávarútvegi og grænum orkuskiptum.

Viðhafnarmóttaka og hátíðarkvöldverður

Ríkisheimsóknin hefst formlega að morgni þriðjudagsins 8. apríl með móttökuathöfn að viðstöddum heiðursverði við konungshöllina í miðborg Óslóar. Þaðan verður farið að Akershusvirki þar sem forseti leggur blómkrans frá íslensku þjóðinni að minnismerki um Norðmenn sem féllu í síðari heimsstyrjöld.

Forseti heimsækir að því loknu norska Stórþingið og á fund með forseta þingsins, Masud Gharahkhani. Eftir hádegi verður viðburður í viðskiptaháskólanum BI Norwegian Business School þar sem forseti ræðir við nemendur, starfsfólk og aðra áheyrendur um ábyrga forystu. Deginum lýkur með hátíðarkvöldverði í konungshöllinni til heiðurs forseta Íslands.

Fundir með forsætisráðherra og forseta Stórþingsins

Dagskrá miðvikudagsins 9. apríl hefst í höfuðstöðvum Innovation Norway, systursamtaka Íslandsstofu, þar sem efnt er til norsk-íslensks viðskiptaþings um sameiginlega hagsmuni þjóðanna í grænni umbreytingu.

Þaðan halda forsetahjón í Fontenehuset þar sem borgarstjóri Óslóar segir gestunum frá endurhæfingarstarfi fyrir fólk sem glímir við geðraskanir. Að því loknu eiga forseti og utanríkisráðherra fund með Jonas Gahr Støre forsætisráðherra og snæða svo hádegisverð í boði ríkisstjórnar Noregs.

Sjónum beint að bókmenntaarfinum

Síðdegis á miðvikudag fer fram menningarviðburður í Óslóarháskóla þar sem sjónum verður beint að bókmenntaarfi þjóðanna. Skáldin og rithöfundarnir Gerður Kristný, Knut Ødegård og Mette Karlsvik taka þar þátt í umræðum sem Halldór Guðmundsson rithöfundur stýrir.

Um kvöldið býður forseti Íslands til móttöku til heiðurs Haraldi konungi og Sonju drottningu. Þar reiðir íslenska kokkalandsliðið fram veitingar, Ari Eldjárn fer með gamanmál og Benjamín Gísli Einarsson tónskáld leikur á píanó.

Niðarósdómkirkja heimsótt

Á þriðja degi heimsóknarinnar fylgir Hákon krónprins forsetahjónum og opinberri sendinefnd til Þrándheims, ásamt Tore O. Sandvik, varnarmálaráðherra Noregs. Á dagskránni í Þrándheimi er viðskiptaviðburður um bláa hagkerfið þar sem forseti og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, flytja ávörp.

Síðar um daginn heimsækja forsetahjón heimavarnardeild norska hersins í Værnes þar sem þau kynna sér þjálfunar- og endurhæfingarverkefni sem Norðmenn bjóða fyrir úkraínska hermenn.

Forsetahjón heimsækja einnig Niðarósdómkirkju sem á rætur djúpt í sameiginlegri sögu Íslands og Noregs. Ríkisheimsókninni lýkur í Þrándheimi síðdegis 10. apríl og koma forsetahjón aftur til Íslands á fimmtudagskvöld.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar