Fréttir | 08. júlí 2018

Þjóðlagahátíð og strandmenning

Forsetahjón sækja lokadaga Norrænu strandmenningarhátíðarinnar og Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði. Á laugardagskvöld voru forsetahjónin á uppskeruhátíð strandmenningarhátíðarinnar í Bátahúsinu sem tilheyrir hinu glæsilega Síldarminjasafni á Siglufirði. Á sunnudag sótti forseti helgistund á Kirkjuhólnum á Hvanneyri ásamt gestum strandmenningarhátíðarinnar, þeirra á meðal fríðum hópi Færeyinga. Síðar sama dag sóttu forsetahjónin tónleika í Siglufjarðarkirkju. Sinfóníuhljómsveit unga fólksins var þar í meginhlutverki undir stjórn Hallfríðar Ólafsdóttur en þrír karlakórar létu einnig til sín taka þegar Brennið þið vitar, kunnasti kafli Alþingishátíðarkantötu Páls Ísólfssonar, var fluttur. Þetta voru Karlakórinn Fóstbræður, Karlakórinn í Fjallabyggð og Karlakór Dalvíkur. Á tónleikunum var eitt verka Ernest Blochs frumflutt á Íslandi og einleikari á fiðlu þar var Chrissie Telma Guðmundsdóttir. Þá var flutt í fyrsta sinn á Íslandi útsetning Gunnsteins Ólafssonar á íslenskri þjóðlagasyrpu, Þýtur í stráum. Gunnsteinn kom þjóðlagahátíðinni á Siglufirði á laggirnar árið 2000 og stofnaði Þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar þar í bæ árið 2006. Gunnsteinn stofnaði Sinfóníuhljómsveit unga fólksins árið 2004 ásamt nemendum við helstu tónlistarskóla höfuðborgarsvæðisins.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar