Fréttir | 04. mars 2023

Frímúrararegla karla og kvenna

Forseti flytur ávarp á málþingi í Reykjavík á vegum Íslandssambands Le Droit Humain, alþjóðlegrar frímúrarareglu karla og kvenna. Rúm öld er liðin frá því reglan hóf störf á Íslandi, með stofnun stúkunnar Ýmis þann 12. mars 1921. Til að fagna tímamótunum var boðað til málþings, með yfirskriftinni Samkennd - Samviska - Samfélag.

Le Droit Humain rekur upphaf sitt til Frakklands á ofanverðri 19. öld. Í reglunni starfa karlar og konur saman að mannrækt, óháð kyni, litarhætti og trúarskoðunum. Hér á landi tilheyra reglunni tíu stúkur í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Í ávarpi sínu ræddi forseti meðal annars um gildi þess að varðveita hið gamla en fagna um leið ferskum straumum.

Á málþinginu fluttu einnig erindi þau Elín Jónasdóttir, Gunnar Hersveinn, Sigríður Þorgeirsdóttir og Njörður P. Njarvík. Þá heiðruðu málþingið heiðursgestirnir Réne Motro, Æðsti Valdhafi Reglunnar og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar