Fréttir | 24. júní 2024

Vigdísarverðlaunin

Forseti tekur þátt í afhendingu alþjóðlegra jafnréttisverðlauna í nafni Vigdísar Finnbogadóttur, Vigdís Prize for Womenʼs Empowerment, sem veitt voru í fyrsta sinn í Strassborg í Frakklandi í dag. Stofnað var til verðlaunanna í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu árið 2023 og verða þau framvegis veitt í júní ár hvert á Evrópuráðsþinginu í Strassborg.

Forseti flutti opnunarávarp við verðlaunaathöfnina og gerði grein fyrir þeim miklu tímamótum sem urðu við kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands árið 1980, bæði heima fyrir og erlendis. Þá lofaði forseti framgöngu hennar í embætti, atbeina í þágu samfélags og menningar og sagði víst að arfleifð hennar væri tryggð, meðal annars með hinum merku verðlaunum í nafni hennar.

Verðlaunin hlutu grasrótarsamtökin Irida Womenʼs Center frá Grikklandi sem vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun kvenna og gegn kynbundnu ofbeldi. Alls bárust 123 tilnefningar til verðlaunanna frá öllum heimshlutum. Jafnframt hlutu sérstaka viðurkenningu pólsku samtökin Feminoteka Foundation, sem styðja við konur sem eru þolendur kynbundins ofbeldis, og mexíkóska baráttukonan Pascuala López López. Hún vinnur að því að tryggja rétt kvenna af frumbyggjaættum í dómskerfinu og á vettvangi stjórnmála.

Evrópuráðsþingið og ríkisstjórn Íslands standa sameiginlega að jafnréttisverðlaununum. Þeim er ætlað að verðlauna einstakling eða samtök sem stuðla að eða styðja með framúrskarandi hætti við valdeflingu kvenna, hvort sem um er að ræða aðgerðir sem stuðla að jafnrétti kynjanna, aukinni samfélagsþátttöku kvenna eða aðgerðir sem vekja athygli á ójafnri stöðu kynjanna og hvetja til úrbóta. Verðlaunaféð nemur 60.000 evrum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flutti einnig ávarp við athöfnina og afhenti Evrópuráðinu verðlaunagripinn Kviku eftir listakonuna Brynhildi Þorgeirsdóttur. Listaverkið er úr gleri og með tilvísun í íslenska náttúru og tungu.

Í Strassborg átti forseti einnig fundi með aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og forseta þings Evrópuráðsins  og fylgdi þannig eftir leiðtogafundi Evrópuráðsins sem fram fór í Reykjavík í fyrra. 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar