Forseti ávarpar málþing og tekur þátt í dagskrá Forvarnardagsins 2024. Á Forvarnardeginum er sjónum beint að hagsmunum unglinga í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla og er hann nú haldinn í 19. sinn. Í tilefni dagsins efndi landlæknisembættið til málþings í Ingunnarskóla í Grafarholti í Reykjavík. Þar tóku til máls, auk forseta, þau Alma Möller landlæknir og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. Einnig flutti Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth, erindið „Ekkert um ykkur án ykkar”. Loks tóku til máls fulltrúar úr ungmennaráði UMFÍ, þau Ernir Daði Arnbergz Sigurðsson og Karen Hulda Finnsdóttir. Málþinginu var streymt beint og má sjá upptöku frá því hér.
Í ávarpi sínu ræddi forseti um leiðir til að auka vellíðan ungs fólks og beindi sjónum sérstaklega að aukinni síma-, samfélagsmiðla-, og skjánotkun, sem rannsóknir sína að séu stór þáttu í aukinni vanlíðan.
Þetta er í 19. sinn sem Forvarnardagurinn er haldinn, en verkefni hans hafa frá upphafi verið byggð á rannsóknum um líðan ungmenna. Sýnt hefur verið fram á að samvera með fjölskyldu, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa eru verndandi þættir fyrir áhættuhegðun.
Í kjölfar málþingsins í Ingunnarskóla heimsótti forseti fleiri skóla á höfuðborgarsvæðinu og ræddi þar við grunn- og framhaldsskólanemendur um leiðir til að auka vellíðan þeirra í lífinu.
Myndasafn frá skólaheimsóknum forseta á Forvarnardaginn 2024.