Forseti afhendir heiðursverðlaun Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík – RIFF við hátíðlega athöfn á Bessastöðum að viðstöddu forystufólki í íslenskri kvikmyndagerð, þátttakendum í kvikmyndahátíðinni og aðstandendum hennar. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi listræna sýn í kvikmyndagerð og að þessu sinni komu þau í hlut gríska kvikmyndaleikstjórans Athinu Rachel Tsangari.
Hrönn Marinósdóttir stjórnandi RIFF, flutti ávarp til heiðurs Tsangari sem tók að því loknu við verðlaunagripnum úr hendi forseta. Að því loknu var efnt til umræðna sem forseti leiddi. Rætt var um samfélagslegt mikilvægi kvikmyndagerðar, framtíð greinarinnar almennt og hvar Íslendingar gætu gert betur í þeim geira.