• Forsetahjónin á Bessastöðum. Ljósmynd: Aldís Pálsdóttir
Fréttir | 07. okt. 2024

Ríkisheimsókn til Danmerkur

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, halda í dag til Danmerkur vegna ríkisheimsóknar sem hefst í Kaupmannahöfn á morgun, þriðjudaginn 8. október. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadótttir utanríkisráðherra verður með í för ásamt opinberri sendinefnd.

Hefð er fyrir því að fyrsta ríkisheimsókn nýs forseta í embætti sé til Danmerkur. Þetta er jafnframt fyrsta ríkisheimsóknin sem Danir bjóða til eftir að Friðrik X. varð konungur. Markmið heimsóknarinnar er að styrkja söguleg tengsl Íslands og Danmerkur og efla enn frekar hið nána samband þjóðanna.

Áhersla á samstarf um orkumál

Samhliða heimsókninni ferðast viðskiptasendinefnd á vegum Íslandsstofu Grænvangs, Samtaka Iðnaðarins og Dansk Íslenska viðskiptaráðsins til Danmerkur með fulltrúum um 50 íslenskra fyrirtækja sem sækja þar hluta dagskrárinnar með konungi og forseta, ásamt fulltrúum úr dönsku viðskiptalífi. Megináhersla viðskiptasendinefndarinnar er á eflingu núverandi viðskiptatengsla og aukið samstarf um orkumál og grænar lausnir og sameiginlega hagsmuni við að mæta loftslags- og sjálfbærnimarkmiðum þjóða.

Konungurinn heimsækir Jónshús

Heimsóknin hefst að morgni þriðjudagsins 8. október þegar konungshjónin taka á móti forsetahjónum sem koma með báti að gömlu tollbryggjunni Toldboden í Kaupmannahöfn. Þaðan halda hjónin saman með hestvagni til formlegrar mótttökuathafnar við Amalíuborgarhöll.

Á meðal helstu dagskráratriða á fyrri degi heimsóknarinnar er heimsókn forsetahjóna og konungshjóna í Jónshús, þar sem þau hitta félaga í samtökum íslenskra kvenna í dönsku atvinnulífi og kynna sér sögu og starfsemi hússins. Verður þetta í fyrsta sinn í sögunni sem þjóðhöfðingi Danmerkur heimsækir Jónshús sem gegnir meðal annars því hlutverki að vera félagsheimili Íslendinga sem búsettir eru í Danmörku.

Handritasafn Árna Magnússonar heimsótt

Næst halda forsetahjónin í Kristjánsborgarhöll, aðsetur danska Þjóðþingsins, þar sem Søren Gade þingforseti tekur á móti þeim og kynnir sýningu um dönsku stjórnarskrána auk þess sem rætt verður við danska þingmenn. Frá Kristjánsborgarhöll liggur leiðin í Árnasafn í Kaupmannahafnarháskóla en þar eru varðveitt þau íslensku handrit úr safni Árna Magnússonar sem ekki var skilað til Íslands. Dönsku konungshjónin verða þar einnig viðstödd þegar menningarmálaráðherrar Íslands og Danmerkur, Lilja Alfreðsdóttir og Christina Egelund, undirrita sameiginlega viljayfirlýsingu um áframhaldandi samstarf ríkjanna um varðveislu og notkun handritasafnsins í báðum löndum. Konungur og drottning ásamt forsetahjónum munu að því loknu skoða öryggishvelfinguna þar sem handritin eru varðveitt.

Hátíðarkvöldverður í Kristjánsborgarhöll

Næsti viðkomustaður forsetahjóna í borginni á fyrri degi heimsóknarinnar er í endurvinnslustöðinni Amager Bakke. Þar verða fulltrúar Íslandsstofu og Grænvangs viðstaddir ásamt íslensku viðskiptasendinefndinni vegna kynningar á starfsemi CopenHill virkjunarinnar þar sem úrgangi, sem ekki er hægt að endurvinna, er breytt í græna orku.

Forseti heldur að því loknu í varnarmálaráðuneyti Danmerkur þar sem hún og utanríkisráðherra eiga sameiginlegan fund með Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra og varaforsætisráðherra Danmerkur.

Um kvöldið bjóða Friðrik konungur og Mary drottning til hátíðarkvöldverðar í Kristjánsborgarhöll, forsetahjónunum til heiðurs. Danska ríkissjónvarpið, DR, sjónvarpar viðburðinum í beinni útsendingu.

Samstarf á sviðið loftslagslausna

Miðvikudaginn 9. október hefst dagskrá forsetahjóna með heimsókn til State of Green og Dansk Industri, systurfélaga Grænvangs og Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Þar er efnt til Dansk-íslensks viðskiptaþings þar sem fjallað verður um tækifæri til frekara samstarfs þjóðanna sem báðar standa framarlega við nýtingu endurnýjanlegrar orku og nýsköpunar á sviði loftslagslausna. Friðrik X. og forseti Íslands ávarpa þingið og svo taka við pallborðsumræður þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur þátt ásamt Lars Aagaard, ráðherra loftslags- og orkumála í Danmörku.

Í lok viðskiptaþingsins verður undirrituð viljayfirlýsing Grænvangs og State of Green um aukið samstarf þeirra á milli, en þess má geta að Grænvangur var stofnaður að fyrirmynd State of Green í kjölfar kynningar á þeirri starfsemi í ríkisheimsókn fyrrverandi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, árið 2017.

Háskólasamstarf

Næst á dagskrá miðvikudagsins er heimsókn forsetahjóna í danska viðskiptaháskólann, Copenhagen Business School (CBS). Á annað hundrað Íslendinga er við nám í skólanum, auk þess sem þar starfa íslenskir fræðimenn sem forsetahjón munu hitta að máli. Þá verður efnt til opins viðburðar fyrir nemendur skólans, þar sem dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, flytur erindi. Að því loknu mun forseti eiga opið samtal við rektor CBS, Peter Møllgard, á sviði og sitja fyrir svörum nemenda.

Síðdegis er konungi og forseta boðið í sendiherrabústað Íslands í Kaupmannahöfn þar sem þau taka þátt í hringborðsumræðum um orku-og loftslagsmál með fulltrúum úr íslensku og dönsku viðskiptalífi auk utanríkisráðherra Íslands og borgar- og sveitastjórnarráðherra Danmerkur sem jafnframt er ráðherra norræns samstarfs.

Á sama tíma heimsækir Björn Skúlason, eiginmaður forseta, fyrirtækið Too-Good-To-Go, sem stofnað var í Danmörku árið 2016 en það rekur nú útibú víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Markmið starfseminnar er að draga úr matarsóun og styðja fyrirtæki við endurnýtingu umframmatvæla.

Á miðvikudagskvöld býður forseti Íslands til móttöku til heiðurs Friðriki X. Danakonungi á Nordatlantens Brygge og lýkur þá formlegri dagskrá ríkisheimsóknarinnar.

Að morgni fimmtudagsins 10. október heimsækja forsetahjón höfuðstöðvar íslenska tæknifyrirtækisins Marel í Kaupmannahöfn. Þau koma aftur til Íslands síðdegis á fimmtudag.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar