• Forsetahjón ásamt konungshjónunum í móttöku við Norðurbryggju í lok tveggja daga ríkisheimsóknar til Danmerkur. Ljósmynd: Ritzau Scanpix
  • Forseti og Friðrik X. Danakonungur heimsækja State of Green í Kaupmannahöfn, systurstofnun Grænvangs. Ljósmynd: Hildur María Valgarðsdóttir
  • Forseti ávarpar dansk-íslenskt viðskiptaþing í Kaupmannahöfn. Ljósmynd: Hildur María Valgarðsdóttir
  • Forsetahjón bjóða konungshjónin velkomin í móttöku þeim til heiðurs á Norðurbryggju í lok tveggja daga ríkisheimsóknar til Danmerkur. Ljósmynd: Hildur María Valgarðsdóttir.
Fréttir | 09. okt. 2024

Síðari dagur Danmerkurheimsóknar

Forsetahjón halda áfram opinberri heimsókn sinni til Danmerkur. Á síðari degi heimsóknarinnar var megináhersla dagskrárinnar á eflingu núverandi viðskiptatengsla Danmerkur og Íslands, aukið samstarf um orkumál og sameiginlega hagsmuni við að mæta loftslags- og sjálfbærnimarkmiðum þjóða.

Um fyrri dag heimsóknarinnar má lesa hér: Konunglegar móttökur
Sjá einnig myndasafn: Ríkisheimsókn til Danmerkur

Viðskiptaþing, háskólanemar og hringborðsumræður

Síðari heimsóknardagurinn hófst með heimsókn til State of Green og Dansk Industri, systurfélaga Grænvangs og Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Þar var efnt til Dansk-íslensks viðskiptaþings þar sem fjallað var um tækifæri til frekara samstarfs þjóðanna sem báðar standa framarlega við nýtingu endurnýjanlegrar orku og nýsköpunar á sviði loftslagslausna. Forseti og Danakonungur ávarpuðu bæði þingið og greindi forseti frá því að hún hafi tekið að sér hlutverk verndara Grænvangs.

Næst á dagskrá miðvikudagsins var heimsókn forsetahjóna í danska viðskiptaháskólann, Copenhagen Business School (CBS). Á annað hundrað Íslendinga er við nám í skólanum, auk þess sem þar starfa íslenskir fræðimenn sem forsetahjón hittu að máli. Þá var efnt til viðburðar fyrir nemendur skólans, þar sem dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, flutti erindi. Að því loknu átti forseti eiga opið samtal við rektor CBS, Peter Møllgard, og svaraði spurningum nemenda úr sal.

Síðdegis var konungi og forseta boðið í sendiherrabústað Íslands í Kaupmannahöfn þar sem þau tóku þátt í hringborðsumræðum um orku-og loftslagsmál með fulltrúum úr íslensku og dönsku viðskiptalífi, auk utanríkisráðherra Íslands og borgar- og sveitastjórnarráðherra Danmerkur sem jafnframt er ráðherra norræns samstarfs.

Móttaka til heiðurs konungshjónum

Um kvöldið buðu forsetahjón til móttöku á Norðurbryggju til heiðurs dönsku konungshjónunum. Í móttökunni reiddi íslenska kokkalandsliðið fram smárétti úr íslensku hráefni auk þess sem boðið var upp á íslenskan bjór frá ölgerðinni. Sigurður Flosason tónlistarmaður lék tónlist og Ari Eldjárn grínisti skemmti gestum. Með móttökunni lauk formlegri dagskrá ríkisheimsóknarinnar.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar