Forseti ávarpar menningarhátíð í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Efnt var til hátíðarinnar í tilefni af 350 ára ártíð Hallgríms Péturssonar sálmaskálds sem þjónaði lengst af sinni starfsævi sem prestur í Saurbæ og samdi þar Passíusálmana. Kirkjan á staðnum, sem við hann er kennd, var vígð árið 1957.
Allt þetta ár er efnt til ýmissa menningarviðburða í tilefni af ártíðinni. Hápunktur dagskrárinnar var Hallgrímshátíð sem haldin var á dánardegi Hallgríms en hann lést þann 27. október 1674. Hátíðarguðsþjónusta var haldin í Hallgrímskirkju þar sem Kór Saurbæjarprestakalls frumflutti tvö ný kórverk eftir textum Hallgríms. Að lokinni messu var boðið til kaffisamsætis í Vatnaskógi og loks til hátíðardagskrár.
Í ávarpi sínu minntist forseti menningarframlags Hallgríms Péturssonar með einlægu þakklæti og benti á að segja mætti að Hallgrímur hafi með ferli sínum skapað margvíslegar tengingar og byggt brýr. Hann nam kristin fræði en komst einnig í óbeina snertingu við Íslamstrú, hann bjó bæði hér á Íslandi og erlendis og bjó raunar á nokkrum stöðum á Íslandi. Hann var sálmaskáld en samdi líka gamanmál, heilræðavísur og önnur auðskilin kvæði. Hann hefur með verkum sínum tengt saman kynslóðir og ólík bókmenntaskeið; og jafnframt því sem hann var hálærður menntamaður og skáld var hann erfiðismaður og loks fórnarlamb illvígs sjúkdóms. Kröpp kjör hans og limafallssýki hafa gert hann líkastan píslarvotti í huga margra.
Þá vitnaði forseti til heilræða Hallgrím Péturssonar og hvatti landsmenn til að hafa þau ofarlega í huga. Hún sagðist um langt skeið verið djúpt hugsi yfir orðræðu samfélagsins og vaxandi ofbeldi og vanlíðan í samfélaginu. „Á tímum sítengingar virðist hafa orðið alvarlegt tengslarof og því aldrei verið mikilvægara að við hugum að þeim tengslum sem skipta okkur sköpum: tengslunum við okkur sjálf, við hvert annað, við náttúruna og við einhvern æðri tilgang. Þetta allt er nauðsynlegt til að styðja við góða andlega og samfélagslega heilsu en síendurtekin og sorgleg atvik hafa átt sér stað í okkar samfélagi á þessu ári og benda til þess að við þurfum að gæta betur að hvoru tveggja. Þar trúi ég að hvert okkar geti haft áhrif, valið að gera kærleikann að okkar eina vopni. Valið að horfast í augu og taka utan um hvert annað og okkar samfélag.
Ávarp forseta má lesa í heild sinni hér.