Forseti afhendir Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, við hátíðlega athöfn á Parliament hótel í Reykjavík. Verðlaunin í ár hlýtur Niels Fredrik Dahl frá Noregi fyrir bókina „Fars rygg“. Bókmennaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962 til fagurbókmennta sem er samin eru á einu af norrænu tungumálunum. Markmiðið með verðlaununum er að vekja áhuga á bókmenntum og tungumálum grannþjóðanna sem og menningarlegri samkennd þeirra.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að skáldsaga Dahl sé mögnuð en jafnframt lágstemmd. „Frásögnin teygir sig yfir nokkra áratugi og heimsálfur og hefur órjúfanleg tengsl við sögu stríða og heimsvaldastefnu, en varpar um leið ljósi á það hvernig minni sem einkennist af gloppum og lausum endum er í raun það eina sem sem við höfum við að styðjast þegar við reynum að átta okkur á fortíðinni." Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.
Við sömu athöfn voru einnig veitt Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Auk Niels Fredrik Dahl eru verðlaunahafarnir í ár höfundurinn Jakob Martin Strid, tónskáldið Rune Glerup, arkitektinn Arnhildur Pálmadóttir og kvikmyndaleikstjórinn Dag Johan Haugerud, ásamt framleiðendunum Yngve Sæther og Hege Hauff Hvattum.
Áður hafði forseti boðið öllum verðlaunahöfum ársins til móttöku á Bessastöðum.