Forseti afhendir Íslensku menntaverðlaunin 2024 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þrjár menntastofnanir og þrír grunnskólakennarar eru handhafar verðlaunanna í ár en tilkynnt var um úrslit þeirra í dag, miðvikudaginn 6. nóvember. Markmið verðlaunanna er sem fyrr að vekja athygli á og hefja til vegs í samfélaginu það metnaðarfulla og vandaða starf sem unnið er með börnum og ungmennum á öllum skólastigum.
Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum og bárust fjölmargar tilnefningar um verðuga verðlaunahafa um allt land. Viðurkenningaráð valdi úr þeim og kynnti tilnefningarnar á alþjóðadegi kennara þann 5. október. Úrslitin voru síðan gerð opinber í kvöld með sjónvarpsútsendingu RÚV frá veitingu verðlaunanna. Sjá einnig myndasafn frá athöfninni.
Handhafar Íslensku menntaverðlaunanna 2024:
Verðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur hlýtur Fellaskóli í Reykjavík fyrir fjölmenningarlega og skapandi kennsluhætti þar sem byggt er á virðingu fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika. Fellaskóli er fjölmenningarlegur skóli þar sem töluð eru um 30 tungumál og litið svo á að fjölbreytileikinn auðgi skólastarfið. Skólinn hefur undanfarið ár starfað markvisst að því að þróa sig áfram undir kjörorðinu „Draumaskólinn Fellaskóli“ en leiðarljós þess verkefnis felast í áherslu á málþroska og læsi, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf.
Verðlaun fyrir framúrskarandi kennslu hlýtur Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ, fyrir fjölbreytta og hugmyndaríka útikennslu, þróun fjölbreyttra valgreina og leiðsögn fyrir kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.
Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni hlýtur Helgafellsskóli í Mosfellsbæ fyrir verkefnið Snjallræði sem er nýsköpunarverkefni sem nær frá leikskólastigi upp á unglingastig. Markmið verkefnisins er að nemendur þjálfist í skapandi og gagnrýninni hugsun. Við verðlaununum tóku Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri og Málfríður Bjarnadóttir deildarstjóri, sem verið hefur helsti hvatamaður verkefnisins.
Verðlaun fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun hlýtur Verkmenntaskóli Austurlands fyrir að efna til samstarfs við grunnskólana í Fjarðabyggð um framboð á fjölbreyttum, verklegum valgreinum. Öllum nemendum í 9. og 10. bekk grunnskólanna í sveitarfélaginu er boðið að sækja tvö verkleg námskeið í Verkmenntaskólanum. Mikil ánægja hefur verið með verkefnið sem hófst fyrir þremur árum og hefur skilað aukinni aðsókn í iðn- og starfsnám. Við verðlaununum tóku Eydís Ásbjörnsdóttir skólameistari og Birgir Jónsson aðstoðarskólameistari Verkmenntaskólans.
Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2024 hljóta Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri, og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, fyrir margháttað framlag, leiðsögn og stuðning við kennara og nemendur um allt land við að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti.
Nánari upplýsingar um hin tilnefndu verkefni má finna á vefsíðu verðlaunanna.
Samkomulag um áframhaldandi samstarf
Í lok athafnarinnar undirrituðu samstarfsaðilar nýtt samkomulag um Íslensku menntaverðlaunin til framtíðar. Að því standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag forstöðumanna skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
Ólafur Ragnar Grímsson stofnaði til Íslensku menntaverðlaunanna og veitti þau á árunum 2005–2011, þegar þau lögðust af í kjölfar efnahagshrunsins. Verðlaunin voru tekin upp að nýju árið 2020 og eru nú veitt árlega á Bessastöðum.