Björn Skúlason, eiginmaður forseta, heimsækir Krabbameinsfélagið Framför og tekur á móti fyrsta eintakinu af Bláa treflinum, barmmerki sem selt er til styrktar starfi félagsins. Framför er félag karla með krabbamein í blöðruhálskirtli sem er algengasta tegund krabbameins meðal karla. Félagið efnir til fjáröflunarátaksins Bláa trefilsins í nóvember ár hvert og tileinkar mánuðinn um leið vitundarvakningu um blöðruhálskrabbamein.
Björn tók á móti fyrsta eintaki Bláa trefilsins í Hellinum, félagsmiðstöð Framfarar í Grafarvogi. Þangað geta karlar sem greinst hafa með blöðruhálskrabbamein og aðstendur þeirra leitað eftir fræðslu, félagsskap og stuðningi. Barmnælan er til sölu á vefsíðu félagsins.