Forseti tekur þátt í setningu átaksverkefnis um að auka nýliðun kvenna og kvára í upplýsingatæknistörfum. Að átakinu standa Vertonet, samtök kvenna og kvára í upplýsingatækni á Íslandi. Hlutfall kvenna og kvára í upplýsingatækni er um 28% hér á landi, en mikil vöntun er á sérfræðingum í geiranum.
Átaksverkefninu var hleypt af stokkunum 2022 og er nú komið að síðari fasa þess. Lokamarkmiðið að smíða ókeypis leiðarvísi, Vertonet Playbook, sem verði verkfærakista til að auðvelda fyrirtækjum og stjórnendum að stuðla að inngildandi vinnustaðamenningu og stuðli að því að fleiri konur og kvár kjósi sér upplýsingatækni sem starfsvettvang.
Átakinu var ýtt úr vör með rafrænum fundi mannauðsfólks og fólks í tæknigeiranum þar sem öll fengu tækifæri til að leggja sitt af mörkum við smíði leiðarvísins. Forseti tók þátt í setningu viðburðarins með opnu samtali við driffjöður verkefnisins, Ásdísi Eir Símonardóttur, mannauðs- og stjórnendaráðgjafa. Rætt var um áherslur forseta á jafnréttismál, eiginleika góðra leiðtoga og framtíð leiðtogahlutverka, gildi fjölbreytileika á vinnustöðum og reynslu forseta af aðferðum við inngildingu á alþjóðlegum vinnumarkaði.
Að loknu samtalinu við forseta tóku ýmsir sérfræðingar til máls og verður áfram unnið úr afsrakstri fundarins við gerð leiðarvísis Vertonets á næstu vikum.