Forseti afhendir viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, við hátíðlega athöfn í Reykjavík. Viðurkenningin er veitt á Alþjóðadegi barna, 20. nóvember, en á þessum degi árið 1989 var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur. Í ár voru í fyrsta skipti tvær viðurkenningar veittar og féllu þær í skaut Flotanum – flakkandi félagsmiðstöð og Andreu Þórunni Björnsdóttur, eða ömmu Andreu, fyrir ómetanleg störf í þágu barna og elju við að bæta samfélagið börnum í hag. Viðurkenningunni fylgir 500.000 króna styrkur til verkefnanna.
Mikilvægt að setja sig í spor annarra
Í ávarpi sínu þakkaði forseti forystu Barnaheilla í málefnum barna og áréttaði að velferð barna og ungs fólks eigi að vera forgangsmál hvers samfélags. Hún sagði Íslendinga mega þakka fyrir að búa í velferðarsamfélagi þar sem öryggi og réttindi barna séu almennt vel varin. Síðustu misseri hafi sumir Íslendingar engu að síður kynnst þeirri áskorun sem börn og aðstandendur þeirra standa frammi fyrir þegar óvæntar náttúruhamfarir ganga yfir og gera það að verkum að saklaus börn missa óvænt heimili sín og samfélag. Mikilvægt sé að setja sig í spor Grindvíkinga og annarra sem mæta slíkum áskorunum hér heima, og í heiminum, og setja ávallt stöðu barna í forgang.
Forseti ræddi einnig blikur á lofti um andlega líðan ungs fólks og afleiðingar tengslarofs í sítengdum heimi. „Ég hvet okkur, sem hér erum, til að horfa ekki lengur í gegnum fingur okkar hvað þessi áhrif varðar. Samfélagsmiðlar eru mögulega það fíkniefni sem flestum börnum og ungmennum stendur hvað mest ógn af nú og nauðsynlegt er að setja einhver mörk um notkun þeirra ef stöðva á þessa ískyggilegu þróun,“ sagði forseti í ávarpi sem lesa má í fullri lengd hér.
Sjá einnig pistil forseta: Alþjóðadagur barna.
Nánar um handhafa viðurkenninga Barnaheilla 2024:
Flotinn – flakkandi félagsmiðstöð
Flotinn stendur fyrir forvarnarstarfi þar sem unnið er með viðhorf og atferli unglinga í átt til heilbrigðs lífsstíls og virkni í samfélaginu líkt og gert er í félagsmiðstöðvastarfi. Í umsögninni sem fylgdi einni tilnefningunni segir að Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð, sé gríðarlega mikilvægt verkefni sem snýr að því að stuðla að öryggi og velferð unglinga, vinna að forvörnum og draga úr áhættuþáttum í umhverfi unglinga.
Starfsfólk Flotans ferðast um borgina, oft utan opnunartíma félagsmiðstöðva, með það að markmiði að kortleggja stöðu á áhættuhegðun meðal unglinga. Þá mynda þau tengsl við unglinga í viðkvæmri stöðu, eru til staðar fyrir þau, byggja upp traust og stuðla þannig að öryggi þeirra.
Amma Andrea
Andrea Þórunn Björnsdóttir, sem gengur undir nafninu amma Andrea, er mörgum kunn á Akranesi og víðar fyrir góðmennsku sína og náungakærleik. Í fjölda ára hefur hún staðið fyrir söfnunum til að styðja við fjölskyldur sem eiga um sárt að binda vegna veikinda eða annarra áfalla.
Í umsögn segir að framtak Andreu sé einstakt og ósérhlífið en myndi ekki ganga upp nema vegna aðkomu þeirra sem gefa söluvarning og þeirra sem kaupa hann eða styrkja starfið að öðru leyti. Því má segja að þetta góðverk ömmu Andreu sé fyrirmyndar samfélagsverkefni þar sem stórkostlegt einstaklingsframtak hennar sé öðrum hvatning til að láta gott af sér leiða.