Forseti boðar formann Samfylkingar til fundar á Bessastöðum. Í kjölfar fundarins ræddi forseti við fjölmiðla og gaf eftirfarandi yfirlýsingu:
„Í gær átti ég fundi með forystufólki þeirra stjórnmálaflokka, sem eiga fulltrúa á Alþingi, þar sem ræddir voru helstu kostir í stöðunni í kjölfar nýafstaðinna kosninga. Í ljósi þess sem fram kom í þeim viðræðum, og á grundvelli kosningaúrslita, boðaði ég formann Samfylkingarinnar aftur á minn fund í dag.
Eftir samtal okkar á þeim fundi hef ég falið Kristrúnu Frostadóttur umboð til stjórnarmyndunar. Kristrún hefur tjáð mér að hún hafi nú þegar átt samtöl við formenn annarra flokka sem einnig hafa upplýst mig um að þeir séu reiðubúnir til formlegra viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar með Samfylkingunni.
Ég óska fulltrúum stjórnmálaflokkanna góðs gengis í þeim viðræðum og mun fylgjast áfram með þróun mála."
Sjá einnig: Fundir með formönnum flokka.