Forseti ávarpar hátíðarsamkomu í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá stofnun Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 1964 til minningar um alla þá Vestur-Íslendinga sem áttu hlut að stofnun Eimskipafélagsins árið 1914. Tilgangur sjóðsins, samkvæmt stofnskrá hans, er „að stuðla að velgengni Háskóla Íslands svo og að styrkja efnilega stúdenta til náms við Háskólann“. Frá því farið var að greiða styrki úr sjóðnum með reglubundnum hætti hafa alls 199 doktorsnemar við Háskóla Íslands hlotið styrk og nemur heildarúthlutunin frá upphafi rúmum 1,8 milljörðum króna.
Framsýni og framtíðardraumar Íslendinga
Í ávarpi sínu fagnaði forseti framsýni og framtíðardraumum stórhuga Íslendinga sem á sínum tíma söfnuðu fé til stofnunar Eimskipafélags Íslands. Um fimmtungur hlutafjárins safnaðist meðal brottfluttra Íslendinga í Vesturheimi og var einn helsti baráttumaður þátttöku Vestur–Íslendinga í stofnun Eimskipafélagsins Árni Eggertsson, fasteignasali og stjórnmálamaður í Manitoba. Fimmtíu árum síðar, árið 1964, var sonur hans Grettir Eggertsson, einn þeirra sem beitti sér fyrir stofnun Háskólasjóðsins og færði hann sjóðnum hlutabréf sín í Eimskipafélaginu til minningar um föður sinn og aðra þá Vestur-Íslendinga sem studdu stofnun þess.
Forseti sagði þá gjöf bera vott um sömu framsýni og stofnun Eimskipafélagsins hálfri öld áður, enda var gjöfin þýðingarmikill stuðningur við menntun og rannsóknir sem í dag séu jafnmikilvægar og samgöngur á sjó voru fyrir hundrað árum. „Auðvitað eru samgöngur á sjó enn þá mikilvægar en hitt telja víst flestir ljóst, að háskólamenntun, nýsköpun og rannsóknir eru einn áhrifamesti lykillinn að velmegun nútímans," sagði í ávarpi forseta sem lesa má hér.
Straumhvörf í fjármögnun doktorsnáms
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpaði einnig hátíðarfundinn og sagði úthlutanir úr sjóðnum hafa valdið straumhvörfum í fjármögnun doktorsnáms á Íslandi. Framlag sjóðsins hafi gert háskólanum kleift að leggja aukna áherslu á rannsóknir og nýsköpun og fjöldi brautskráðra doktora hafi margfaldast í kjölfarið. Mælanlegur árangur skólans í rannsóknum og nýsköpun hafi aukist verulega sem skipti íslenskt samfélag miklu máli.
Að ávörpum loknum tóku til máls þrír styrkþegar Háskólasjóðsins og sögðu frá doktorsrannsóknum sínum. Það voru þau Adam Janusz Switala, doktorsnemi á Menntavísindasviði, Sóllilja Bjarnadóttir, doktorsnemi á Félagsvísindasviði, og Aysan Safavi, doktorsnemi á Verkfræði- og náttúruvísindaviði.