Fréttir | 12. des. 2024

Samhæfð viðbrögð við ofbeldi

Forseti á fund með samfélagslögregluþjónum, ásamt fulltrúum Neyðarlínu og Fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, um samhæfð viðbrögð við ofbeldi meðal barna og unglinga. Á fundinum tók forseti við fyrstu eintökum af nýjum flæðiritum með leiðbeiningum um fyrsta viðbragð vegna vopnalagabrota og kynferðisofbeldis. Flæðiritin eru ætluð starfsfólki skóla, félagsmiðstöðva, og íþrótta- og æskulýðsstarfsemi.

Rætt var um það markmið að draga úr tíðni ofbeldisbrota, en fram kom á fundinum að tilkynningum til lögreglu og barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi hefur fjölgað verulega. Stjórnvöld hafa brugðist við með 25 aðgerðum, þar á meðal er aukið viðbragð og sýnilegri löggæsla, fjölgun samfélagslögreglumanna og öflugri forvarnir og fræðsla.

Markmið flæðiritanna er:

Skýrt verklag við neyðartilvikum vegna vopnaburðar og kynferðisofbeldis
Fækka ofbeldisbrotum
Stuðningur við þolendur ofbeldis
Stuðningur við gerendur til að stöðva ofbeldishegðun
Aukin þekking á hvernig megi fyrirbyggja slík atvik og draga úr áhættu.

Leiðbeiningarnar um fyrsta viðbragð er mikilvægur þáttur í að tryggja samhæfð viðbrögð hringinn í kringum landið. Flæðiritunum verður dreift til skóla, fylgt eftir af samfélagslögreglumönnum um allt land og verða gerð aðgengileg á 112.is og vefsíðu lögreglunnar.

Á ofbeldisgátt 112.is er að finna frekari upplýsingar um úrræði og úrvinnslu mála innan skóla, íþrótta- og æskulýðsstarfs og hjá barnaverndarþjónustu. Sjá nánar:

Kynferðisbrot: www.112.is/fr-kynferdisbrot
Vopnaburður www.112.is/fr-vopnaburdur

Sjá einnig pistil forseta: Stöndum saman vörð um börnin okkar.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar