• Bessastaðir. Ljósmynd: Óskar Eiríkur Sveinsson.
  • Í öndvegi móttökusalar Bessastaða má nú sjá abstrakt verk eftir Nínu Tryggvadóttur. Á hægri vegg er Tilbrigði við Flosagjá eftir Jóhannes Kjarval.
  • Í Thomsenstofu voru valin verk eftir þrjá frumherja íslenskrar myndlistar, þá Þórarin B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson og Jóhannes Kjarval.
  • í Thomsenstofu má sjá verkið Áningu eftir Þórarinn B. Þorláksson, 1910.
  • Í Suðurstofu eru verk eftir listafólk sem öll hafa unnið með myndheim abstrakt listar. Hér eru verkin Sveigja (2023) eftir Kristínu Morthens og Vorgleði (1949) eftir Svavar Guðnason.
  • Óður til mánans (1925) eftir Finn Jónsson.
  • Í Suðurstofu eru verk eftir listafólk sem öll hafa unnið með myndheim abstrakt listar.
  • Borðstofa Bessastaða er helguð úrvali verka sem innblásin eru af íslenskum atvinnuháttum.
  • Borðstofa Bessastaða er helguð úrvali verka sem innblásin eru af íslenskum atvinnuháttum. Þar á meðal er verk Kristínar Jónsdóttur, Við þvottalaugarnar (1931).
  • Borðstofa Bessastaða er helguð úrvali verka sem innblásin eru af íslenskum atvinnuháttum. Þar á meðal er verk Jóns Engilberts, Fólk að koma frá vinnu (1936) og verkið Mislitar kýr (1966) eftir Jóhann Briem.
  • Í garðskála Bessastaða er að finna höggmyndina Móðir og barn eftir Tove Ólafsson.
  • Á Thomsensgangi hangir vefnaðurinn Sólblóm frá Úkraínu og tvö blómamálverk eftir þær Júlíönu Sveinsdóttur og Nínu Sæmundsen
  • Í móttökusal Bessastaða má meðal annars sjá Kögunarhól eftir Georg Guðna og Gullfoss eftir Kristínu Jónsdóttur.
  • Louisa Matthíasdóttir, Stúlka á hestbaki (1979-1981).
Fréttir | 19. des. 2024

Ný myndlist á Bessastöðum

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hefur í samvinnu við Listasafn Íslands endurnýjað það úrval íslenskrar myndlistar sem prýðir Bessastaði. Allt frá lýðveldisstofnun hefur Listasafn Íslands lánað listaverk til Bessastaða, sem eiga sér mikilvægan sess í menningarsögu landsins auk þess að vera aðsetur forseta Íslands. Þúsundir gesta, jafnt íslenskra sem erlendra, heimsækja forsetasetrið á ári hverju og vekja verk íslenskra myndlistarmanna þar jafnan mikla athygli. Þá er húsið opnað almenningi að minnsta kosti tvisvar á ári, á Safnanótt og Menningarnótt.

Samtals 28 íslensk verk úr safnkosti Listasafns Íslands prýða nú Bessastaði að loknum breytingum auk nokkurra verka sem eru í eigu embættisins. Samhliða endurnýjuninni hefur verið sett upp ný síða á vef Listasafns Íslands sem tileinkuð er listaverkunum á Bessastöðum. Markmiðið er að þjóðhöfðingjasetrið endurspegli þá miklu grósku sem einkennir íslensk myndlistarlíf og jafnframt að greiða aðgengi almennings að upplýsingum um listaverkin sem þar má sjá.

Aukin breidd í úrvalinu

Við valið á nýjum listaverkum fyrir Bessastaði var haft í huga að færa aukna breidd í þá list sem þar er til sýnis. Þannig spanna verkin nú lengra tímabil í íslenskri listasögu en áður auk þess sem verkum eftir myndlistarkonur hefur verið fjölgað til jafns við karla.

Í móttökusal Bessastaða er nú listaverk eftir Nínu Tryggvadóttur í öndvegi en Flugþrá Jóhannesar Kjarvals, sem þar var áður, fær enn að njóta sín í salnum, að viðbættu verki hans Blóm í landslagi. Þá er verkið Vindstroka eftir Kjarval á sama stað og áður í bókhlöðunni. Önnur ný verk í móttökusalnum eru eftir Kristínu Jónsdóttur, Júlíönu Sveinsdóttur, Jón Stefánsson, Kristján Davíðsson, Georg Guðna Hauksson og Eggert Pétursson. Öll eiga þau það sameiginlegt að leita innblásturs í íslenskri náttúru þótt hvert og eitt þeirra geri það með sínum sérstaka hætti.

Í Suðurstofu Bessastaða eru verk eftir listafólk sem öll hafa unnið með myndheim abstrakt listar og spanna þau tæplega 100 ára tímabil. Hið elsta er eftir Finn Jónsson sem var frumkvöðull í abstraktlist á Íslandi. Meðal verka á fyrstu sýningu hans, árið 1925, var verkið Óður til mánans sem nú má sjá á Bessastöðum. Yngsta verkið í Suðurstofu er Sveigja frá árinu 2023 eftir Kristínu Morthens sem er fædd árið 1992. Þá eru í Suðurstofu verk eftir Svavar Guðnason, Nínu Tryggvadóttur, Guðmundu Andrésdóttur og Kristján Davíðsson.

Borðstofa Bessastaða er helguð úrvali verka sem innblásin eru af íslenskum atvinnuháttum. Í verkum eftir Kristínu Jónsdóttur, Þorvald Skúlason og Jón Engilberts má sjá fólk við ýmis störf sem tengjast þéttbýlismenningu. Sveitarómantíkin svífur hins vegar yfir vötnum í verkum Louisu Matthíasdóttur og Jóhanns Briem sem einnig prýða borðstofuna.

Í Thomsenstofu voru valin verk eftir þrjá frumherja íslenskrar myndlistar, þá Þórarin B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson og Jóhannes Kjarval. Þar má einnig sjá verk í eigu forsetaembættisins eftir danska listamanninn Emanuel Larsen sem var málað árið 1847.

Gjöf frá Úkraínuforseta

Á Thomsengangi hangir nú vefnaðarverk sem Volodimír Selenskí Úkraínuforseti færði forseta Íslands að gjöf eftir fund þeirra á Bessastöðum í október 2024. Verkið, sem kallast Sólblóm eftir þjóðarblómi Úkraínu, er handofið veggteppi eftir úkraínskar listakonur frá bænum Reshetylivka í Poltava-héraði sem þekkt er fyrir einstakt handverk. Í sama rými eru tvö blómamálverk eftir þær Júlíönu Sveinsdóttur og Nínu Sæmundsen sem valin voru sérstaklega til að kallast á við veggteppið.

Loks ber að nefna höggmyndina Móðir og barn eftir Tove Ólafsson en það verk blasir við gestum Bessastaða þegar gengið er um blómaskálann inn í móttökusal.
Almenningi býðst næst að heimsækja Bessastaði á Safnanótt sem haldin verður í tilefni Vetrarhátíðar þann 7. febrúar næstkomandi. Nánar má fræðast um myndlistina á þjóðhöfðingjasetrinu á vefsíðunni: https://www.listasafn.is/list/listaverkasafn/bessastadir/

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar