Fréttir | 01. jan. 2025

Nýársávarp forseta

Forseti flytur sitt fyrsta nýársávarp á Bessastöðum. Ávarpið var sent út á Ríkisútvarpinu og á Facebook síðu forseta.Texta ávarpsins má nálgast hér á íslensku og í enskri þýðinguo og lesa hér í fullri lengd:

***

Kæru Íslendingar – gleðilegt nýtt ár!

Nýársdagur er dagur vona og fyrirheita, dagur nýs upphafs þar sem allt er kvikt og ungt og við hugsum af stórhug um framtíð og af hlýju um fortíð, nýr dagur með gamlar rætur svolítið eins og íslensk þjóð sem á sér langa sögu en er þó um leið ung í samfélagi sjálfstæðra þjóða. Í aðra röndina er þjóðarsálin eins og unglingur sem enn er að þroskast og verða til með aragrúa hugmynda í kollinum, í hina röndina aldagamall reynslubolti.

Ég hugsa oft til þess hve lánsöm ég er að vera hluti af þessari þjóð, sem þrátt fyrir smæð leyfir sér að vera stórhuga og sækja fram, sem gerir kröfur til sjálfrar sín og annarra og er svo rík af sköpunarkrafti að hér virðist allt mögulegt.

Við Björn þökkum ykkur Íslendingum traustið sem þið hafið sýnt okkur. Við þökkum öllu því velviljaða fólki sem hefur mætt okkur með hlýju og greitt götu okkar á liðnu ári, sent okkur kveðjur og boðið okkur velkomin á viðburði um land allt. Ég vil sérstaklega þakka unga fólkinu og börnunum sem nálgast mig oft á förnum vegi og biðja um knús. Þið bræðið hjörtu okkar og við hugsum dag hvern um það hvernig hægt er að tryggja ykkur sem besta framtíð.

***

Allir geta af öðrum lært og það er mikils virði að geta borið saman bækur, ekki síst við þær þjóðir sem standa okkur næst og deila með okkur gildismati. Norðurlönd eru þar fremst í flokki. Í október nutum við hjónin þess heiðurs að vera fyrstu gestir Friðriks tíunda Danakonungs og Mary drottningar í opinberri heimsókn. Saga þjóða okkar hefur tvinnast saman á ótal vegu gegnum aldirnar og nær tenging okkar við Danmörku langt út fyrir stjórnmálin. Við megum margt af Dönum læra, ekki síst um það hvernig styðja má við hugmyndaauðgi og sköpunarkraft á mörgum sviðum þjóðlífsins.

Það er lýsandi dæmi um farsæla norræna samvinnu að í 25 ár hafa Norðurlönd rekið sendiráð sín undir sama þaki í Þýskalandi. Þeim áfanga var fagnað í Berlín í október og áhersla lögð á mikilvægi þess að styrkja enn böndin milli þessara skyldu þjóða. Þar hefur Norðurlandaráð, sem stofnað var skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar, gegnt lykilhlutverki. Ísland fór með formennsku í Norðurlandaráði á síðasta ári og var þing þess haldið hér á landi í októberlok. Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, var gestur þingsins og tók ég á móti honum á Bessastöðum. Það er lærdómsríkt að ræða við mann sem hefur í rúmlega þúsund daga barist fyrir lífi og framtíð þjóðar sinnar.

***

Það eru viðsjár víða um heim. Við erum friðsæl þjóð og fylgjumst að mestu með úr fjarlægð og vonum að þessir vágestir fari hjá garði. „Bærinn minn, / bærinn minn og þinn / sefur sæll í kyrrð“ orti Jakobína Sigurðardóttir í ljóðinu Vökuró sem Jórunn Viðar samdi undurfallegt lag við. „Langt í burt / vakir veröld stór, / grimmum töfrum tryllt.“ En þessi trylltu öfl eru ekki lengur svo ýkja fjarlæg og við eigum það bæði undir sjálfum okkur og öðrum að halda álögum þeirra og áhrifum í skefjum. Vert er að spyrja hvernig Íslendingar geta best staðið fyrir og með friði í heimi sem ófriður ógnar.

Hér heima þurfum við Íslendingar að takast á við ógnaröfl sem ekki setjast að samningaborði — jarðeldana á Reykjanesi. Langvarandi áraun sem á sér engin fordæmi hér á landi á síðari tímum. Ég hvet landsmenn til að horfa á sjónvarpsþættina Grindavík sem bregða ljósi á baráttu samfélags sem er að missa heimili sín og rótfestu en þjappar sér saman í gegnum stórkostlega framgöngu körfuboltaliða bæjarins. Mótlætið sem Grindvíkingar takast á við setur hversdagslegar áskoranir í nýtt samhengi.

Önnur stór verkefni blasa við bæði hér heima og heiman. Þar má nefna vaxandi vanlíðan, einmanaleika og ofbeldi. Við þessu þurfum við að bregðast með samstöðu um það sem skiptir okkur öll máli: heilbrigt samfélag þar sem allir fá notið sín. Lagið sem leikið var á undan ávarpi mínu var samið af ungum stúlkum í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi í tilefni af degi íslenskrar tungu. Þær heita Dagmar Helga og Valgerður Rakel og lagið heitir Riddari kærleikans. Ungu stúlkurnar biðla til okkar að gerast riddarar kærleikans og segja: „Vertu sól fyrir þá sem birtuna ei sjá.“

Íslendingar þekkja bæði dimma dali og miðnætursól. Í mínum huga er okkar helsti styrkur hvernig við mætum til leiks þegar á reynir. Í samfélagi okkar eru ótal dæmi um riddara kærleikans, sjálfboðaliða sem leggja á sig ómælda vinnu fyrir aðra: björgunarsveitirnar, kvenfélögin, íþróttahreyfingin og öll líknarfélögin, svo dæmi séu nefnd. Á liðnu ári fagnaði Rauði krossinn á Íslandi hundrað ára afmæli. „Hundrað ár af mannúð“ tugþúsunda sjálfboðaliða! Við þökkum og erum stolt af þessum kyndilberum.

***

Íslendingar bættust óvænt í hóp þeirra mörgu þjóða sem héldu þingkosningar á liðnu ári en aldrei hafa fleiri gengið að kjörborði um heim allan en árið 2024. Í kjölfar kosninganna í lok nóvember, hefur ný ríkisstjórn verið mynduð. Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar í störfum fyrir land og þjóð.

Það er einsdæmi í sögu okkar að stjórnarmyndunina leiddu þrjár konur. Ég lít á það sem skref í átt til jafnréttis á sviði þar sem mjög hefur hallað á konur í gegnum tíðina. Aukin fjölbreytni góðra fyrirmynda er mikilvæg og fjölgun leiðtoga úr hópi kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins skiptir máli. Í stjórnmálum, eins og hvarvetna, er þörf á aukinni mýkt og mennsku í almennum viðhorfum og leit að lausnum. Þótt slík viðhorf séu oft tengd við konur, þá eru þau óháð kyni og mikilvægt að efla þau — ekki síður meðal drengja og karla.

Ísland á kyndilbera á mörgum sviðum, í vísindum, listum, íþróttum og viðskiptum. Svo fáein dæmi séu tekin má nefna einstakan árangur Víkings Heiðars Ólafssonar sem skipað hefur sér í raðir fremstu píanóleikara í heimi. Þá hefur hin unga Laufey Lín Jónsdóttir vakið alþjóðaathygli og unnið til Grammy verðlauna fyrir sína tónlist.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hlaut í haust Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þverfræðilega nálgun og aukna sjálfbærni í byggingariðnaði og fyrirtækið Össur var á árinu valið af tímaritinu TIME sem leiðandi fyrirtæki sem lætur gott af sér leiða og stundar sjálfbæran vöxt.

Mig langar líka að minnast á afreksfólk okkar í íþróttum og þá sérstaklega þátttakendur á Ólympíuleikunum og Paralympics, Ólympíumóti fatlaðra, sem við Björn vorum viðstödd í París í ágústlok. Það var mannbætandi að fylgjast með eindæma hugrekki, úthaldi og einbeitingu allra sem þar kepptu.
Ég vil líka fyrir hönd okkar hjóna þakka fyrir allar listsýningarnar, leikhúsin, kvikmyndirnar og tónleikana sem við höfum fengið að njóta undanfarna mánuði. Sú reynsla hefur sýnt okkur að listin er leiðin því hún opnar hjörtu okkar og huga.

Það segir allt um ríkidæmi okkar að hér hef ég nefnt aðeins fáein dæmi af mörgum um frábæran árangur Íslendinga heima og erlendis. Við erum stolt af þessum afrekum á öllum sviðum samfélagsins og þau gefa okkur kjark og byr undir báða vængi.

***

Þótt meira en ellefu hundruð ár séu síðan landið byggðist er lýðveldið okkar bara áttatíu ára — áttræður unglingur með stóra drauma. Elstu kynslóðir núlifandi Íslendinga muna enn hve dýrmætt það var að öðlast sjálfstæði og hefja uppbyggingu nýs þjóðskipulags. Þær lifðu þá tíma þegar reisa þurfti nánast alla innviði landsins: atvinnulíf, skóla, heilbrigðiskerfi, samgöngur, fjármálakerfi og menningarstofnanir á borð við leikhús, hljómsveitir og söfn. Þessar kynslóðir dreymdi stóra drauma og tóku til hendinni svo þeir mættu rætast. Við eigum þeim allt að þakka og við eigum að nema af reynslu þeirra. Svo megum við láta okkur dreyma stóra drauma um það sem við ætlum að gera næstu áttatíu árin til að skapa það samfélag sem við viljum búa börnum okkar.

Einn þeirra, sem var ungur maður þegar lýðveldið var stofnað, kvaddi okkur nú í árslok eftir langa og farsæla ævi: Jón Nordal, tónskáld og skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík. Eftir hann liggur fjölbreytt safn tónsmíða sem skipa honum í raðir fremstu tónskálda okkar á 20. öld. Innan um stór og metnaðarfull verk skín lítil perla sem allir Íslendingar þekkja og syngja við ljóð Jónasar Hallgrímssonar: „Smávinir fagrir, foldarskart.“ Það er varla til sá kór á landinu sem ekki hefur sungið þetta lag. Ég hef sjálf sungið það í kór, en mér var ekki ljóst fyrr en nýlega að Jón var aðeins fjórtán ára þegar hann samdi lagið. Hann sat við borðstofuborðið heima hjá sér með Hulduljóð Jónasar og þar kviknaði þessi þjóðargersemi fullsköpuð í huga unglings þegar lýðveldið var rétt handan sjóndeildarhringsins.

„Við erum aldrei of ung til að leiða, né of gömul til að læra,“ sagði Kofi Annan, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna, gjarnan. Við Íslendingar eigum að taka þessi orð til okkar. Við erum öldungur, sem er til í að læra, og unglingur sem vill axla ábyrgð. Við eigum merka sögu og tungumál, sem geymir heilan heim í orðum og okkur er falið að móta áfram með sköpunarkraftinn að leiðarljósi.

***

Kæru Íslendingar. Leyfum sköpunarkraftinum að leiða okkur fram veginn, styðjum við hann og styrkjum og eflum hugrekki okkar til að hafa jákvæð áhrif, hvert með sínum hætti, hvar sem við getum. Svo ég vísi aftur í ljóðið Riddari kærleikans: hlúum líka að þeim sem hugrekki skortir því öll munum við njóta þess að búa í samfélagi umhyggju og umburðarlyndis. Veljum vel bæði orð okkar og gjörðir. Öll erum við einhverjum fyrirmynd og því fleiri sem velja að vera riddarar kærleikans, þeim mun bjartari verður framtíðin.

Við Björn og fjölskyldan öll ítrekum þakkir okkar fyrir góð og hlý kynni og vonum að nýtt ár verði ykkur öllum gleði- og gæfuríkt.

Verum „sól fyrir þá sem birtuna ei sjá!“!

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar