Fréttir | 02. jan. 2025

Andlát Jimmys Carters

Forseti sendir samúðarkveðju vegna fráfalls Jimmys Carters, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem lést 29. desember hundrað ára að aldri. Carter var 39. forseti Bandaríkjanna og gegndi embætti á árunum 1977 til 1981.

Í bréfi forseta, sem stílað er á umsjónarfólk stofnunarinnar Carter Center, biður forseti fyrir samúðarkveðju fyrir hönd íslensku þjóðarinnar til aðstandenda og vina Carters og til starfsfólks stofnunarinnar, sem hjónin Jimmy og Rosalynn Carter komu á fót að lokinni forsetatíð hans, árið 1982. Á vegum stofnunarinnar vann Carter áfram að alþjóðamálum með því markmiði að stuðla að friði á átakasvæðum og standa vörð um lýðræði og mannréttindi í heiminum.

Forseti segist í samúðarbréfinu vona að fjölskylda Carters finni styrk í sorginni með því að minnast af stolti alls þess sem hann kom til leiðar á langri ævi og þeirrar forystu sem hann sýndi í mannúðarmálum á heimsvísu. Þá segist forseti þakklát fyrir að hafa notið þess heiðurs að hitta Jimmy Carter í eigin persónu í fyrri störfum sínum og átt gott samstarf við stofnun hans.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar