Forseti tekur á móti nýjum sendiherra Japans, Keizo Takewaka, sem afhendir trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um traust samskipti Íslands og Japans og leiðir til að styrkja þau enn frekar á sviðum viðskipta og menningar. Í því samhengi var meðal annars rætt um íslenskar bókmenntir sem þýddar hafa verið á japönsku og um kvikmyndina Snertingu sem byggir á samnefndri skáldsögu þar sem sögusviðið er íslenskt og japanskt.
Stefna Íslands í jafnréttismálum var rædd og einnig staða menntamála í löndunum tveimur. Þá var rætt um heimssýninguna EXPO 2025 sem framundan er í Osaka í Japan. Norðurlönd verða þar með sameiginlegan norrænan skála sem ætlað er að styrkja tengslin við Japan og japönsk fyrirtæki. Af þessu tilefni heldur forseti til Osaka á heimssýninguna í maí ásamt íslenskri sendinefnd og tekur þátt í viðamikilli dagskrá.
Að lokinni afhendingu trúnaðarbréfsins heilsaði forseti starfsfólki japanska sendiráðsins á Íslandi. Loks var boðið til móttöku fyrir embættismenn og fulltrúa úr íslensku samfélagi sem sinna samskiptum Íslands og Japans.