Forseti flytur opnunarávarp á Sparkinu 2025, Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla, JA á Íslandi. Verkefnið fer fram í framhaldsskólum landsins á vorönn 2025 og taka um 700-800 nemendur þátt.
Opnunarviðburðurinn var haldinn í Háskólanum í Reykjavík. Ragnhildur Helgadóttir rektor opnaði viðburðinn og forseti flutti ávarp þar sem hún hvatti unga frumkvöðla til dáða. Þá sagði Orri Einarsson, stjórnarmaður í JA Alumni, frá starfsemi samtakanna á önninni. Að lokum sögðu vinningshafar úr smiðjum fyrri ára frá reynslu sinni og hvað á daga þeirra hefur drifið frá þátttöku í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla.
Samtökin Ungir frumkvöðlar á Íslandi voru stofnuð árið 2022 og eiga þau aðild að JA, semu eru alþjóðleg, frjáls félagasamtök og starfa í 123 löndum. Um 15 milljón nemenda taka þátt í verkefnum á vegum samtakanna víðs vegar um heiminn. Markmið JA er að undirbúa ungt fólk fyrir framtíðina og auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamennt í skólum.