Forsetahjón sækja minningarstund þegar 30 ár eru liðin frá snjóflóðunum í Súðavík sem féllu þann 16. janúar 1995 með þeim afleiðingum að fjórtán manns létu lífið.
Minningarstund var haldin í Súðavíkurkirkju af því tilefni en einnig í Guðríðarkirkju í Grafarholti í Reykjavík og sóttu forsetahjón þá athöfn. Leifur Ragnar Jónsson og María Rut Baldursdóttir, prestar Guðríðarkirkju, þjónuðu við athöfnina auk Karls V. Matthíassonar, fyrrverandi sóknarprests. Þá flutti Ómar Már Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík, ávarp og kór Guðríðarkirkju söng.
Við minningarstundina voru störf björgunarsveitarmanna heiðruð sem og annarra viðbragðsaðila og allra þeirra sem að hjálparstörfum komu þegar hamfarirnar riðu yfir. Fulltrúar Rauða krossins og Landsbjargar voru viðstaddir athöfnina og einnig Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Í Súðavík hófst minningarstundin með því að gengið var frá samkomuhúsinu að minningarreit bæjarins. Séra Fjölnir Ásbjörnsson þjónaði við athöfnina.