Forsetahjón eru heiðursgestir á þorrablóti Hrafnistu að Hraunvangi í Hafnarfirði. Löng hefð er fyrir blótinu sem sótt er bæði af íbúum auk aðstandenda og annarra þjónustuþegar. Á Hrafnistu í Hafnarfirði búa 199 íbúar, auk þess sem um 60 gestir njóta þjónustunnar á viku í dagdvöl.
Að venju voru fluttar ræður um minni karla og kvenna og var það í höndum Valdimars Víðissonar, bæjarstjóra í Hafnarfirði, og eiginkonu hans Sigurborgar Geirdal Ægisdóttur. Þá steig Stefán Helgi Stefánsson á stokk ásamt hljómsveit og söng lög eftir Elvis Presley, með fulltingi Björns Skúlasonar, eiginmanns forseta.