Forseti heimsækir Kvennaathvarfið í Reykjavík, ræðir við notendur þess og starfsfólk og kynnir sér starfsemina. Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, tók á móti forseta ásamt fulltrúum stjórnar og starfsfólks. Rætt var um leiðir til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi í samfélaginu og mikilvægi stuðnings við þolendur um allt land. Forseti fékk kynningu á húsakosti athvarfsins og skipulagi starfsins en auk þess var rætt um framtíðarhúsnæði undir starfsemina, sem nú er í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og stendur til að verði tekið í notkun á næsta ári.
Samtök um kvennaathvarf reka tvö athvörf fyrir konur á Íslandi, annað á höfuðborgarsvæðinu og hitt á Akureyri. Þar er boðið upp á ráðgjöf og stuðning fyrir konur sem eru þolendur ofbeldis í nánum samböndum.