Forseti flytur opnunarávarp á stofnfundi nýrra samtaka 27 trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, sem haldinn er í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Árið 2006 undirrituðu 14 skráð trúfélög á Íslandi stefnuyfirlýsingu um samráðsvettvang með það að markmiði að stuðla að gagnkvæmri virðingu og efla friðsamleg samskipti milli trúarbragða. Félögin hafa síðan haft með sér óformlegt samráð og samstarf og hafa fyrri forsetar Íslands frá upphafi sýnt vettvangnum stuðning. Aðildarfélög eru nú orðin 27 talsins og var því talið tímabæt að stofna formleg samtök.
Öllum hollt að kynnast nýjum siðum
Í ræðu sinni sagði forseti að Íslendingar hafi verið harla einsleit þjóð hvað varðar trú í nokkrar aldir eftir siðaskiptin. Á undanförnum áratugum hafi það breyst og nú standi tæplega helmingur landsmanna utan þjóðkirkjunnar.
„Ég held að það sé hollt okkur öllum að kynnast nýjum siðum og framandi sjónarmiðum. Það hefur í raun svipað gildi og að fara í ferðalag, að fræðast og þroskast og skilja þá um leið bæði hugsun og heimsmynd annarra sem og sína eigin. Það má því segja að samráðsvettvangur ykkar hafi líka menntunargildi, geti opnað augu fólks og aukið skilning þess bæði á sjálfu sér og öðrum," sagði forseti.
Ávarp forseta má lesa í heild hér.
Hyggjast standa vörð um trúfrelsi
Í lögum samtakanna segir að tilgangur þeirra sé „að stuðla að umburðarlyndi og virðingu meðal fólks í ýmsum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum með mismunandi trúarafstöðu og ólík lífsviðhorf.“ Samtökin hyggjast standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi.
Stofnfundinn sóttu um fimmtíu manns frá nær öllum trúfélögunum. Kjörin var ný stjórn og er formaður þeirra Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins, og meðstjórnendur þau Mirela Protopapa frá Bahá’íum og Mörður Árnason, stjórnarmaður í Siðmennt.