Forsetahjón heimsækja Þorrasel, dagþjálfun eldri borgara í vesturbæ Reykjavíkur og taka þar þátt í góugleði. Í Þorraseli er boðið upp á fjölbreytta tómstundaiðju og virkni fyrir eldra fólk sem býr heima en þarf félagslegan stuðning. Þar er einnig hægt að fá mat og hvíldaraðstöðu. Til að fagna því að góan hefur nú tekið við af þorra var efnt til gógleði í Þorraseli og snæddu forsetahjón hádegisverð með notendum þjónustunnar.
Guðný Valgeirsdóttir, forstöðukona Þorrasels, tók á móti forsetahjónum og kynnti þeim húsakynnin og starfsemina. Sigurður Jónsson, einn dvalargesta, lék nokkur lög á píanó fyrir forsetahjón sem gáfu sér einnig tíma til að ræða við aðra gesti áður en sest var til borðs.