• Drífa Snædal, Björg Guðrún Gísladóttir og Guðrún Jónsdóttir ásamt forseta á afmælismálþingi Stígamóta.
Fréttir | 06. mars 2025

Afmælismálþing Stígamóta

Forseti tekur þátt í málþingi í tilefni af 35 ára afmæli Stígamóta, grasrótarsamtaka sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Samtökin voru stofnuð á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars 1989. Þá ákváðu íslenskar konur frá fjölda kvennasamtaka og félaga að helga daginn baráttunni gegn kynferðisofbeldi á Íslandi. 

Hóparnir kynntu starfsemi sína á fjölmennum baráttufundi sem haldinn var í Hlaðvarpanum 8. mars 1989 en þar var ákveðið að stofna Samtök kvenna gegn kynferðisofbeldi. Fyrsta verkefni samtakanna var því að koma á ráðgjafar- og upplýsingamiðstöð fyrir konur og börn sem höfðu verið beitt kynferðisofbeldi. Stígamót, staðurinn þar sem stígar mætast og þaðan sem leiðirnar geta verið margar, hóf síðan starfsemi sína 8. mars 1990.

Í tilefni 35 ára afmælis samtakanna var efnt til málþingsins „Útrýmum kynferðisofbeldi" og fór það fram í Vigdísarstofnun. Við setningu málþingsins tók forseti þátt í arinspjalli við Drífu Snædal, talskonu Stígamóta, þar sem rætt var um næstu skref í baráttunni gegn ofbeldi, kynferðislegu og kynbundnu, og hvernig hægt sé að ala ungar kynslóðir upp í jafnrétti og virðingu.

Að því loknu tóku við pallborðsumræður við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra og Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra sem ræddu stöðu málaflokksins við Drífu Snædal. Á málþinginu sagði einnig Sigrún Elsa Stefánsdóttir ráðgjafi hjá Stígamótum, sögu sína og París Anna Bergmann fjallaði um unga fólkið og framtíðina.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar