Fréttir | 06. mars 2025

Sinfóníuhljómsveit Íslands 75 ára

Forseti sækir hátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands á 75 ára afmæli hljómsveitarinnar og ritar ávarp í tónleikaskrá. Í ávarpi sínu segir forseti að erfitt sé að ímynda sér íslenskt menningarlíf án þeirrar þjóðargersemsar sem Sinfóníuhljómsveitin er og ómögulegt að gera sér í hugarlund hvernig tónlistarlíf hér hefði þróast án hennar áhrifa. 

„Sinfóníuhljómsveit Íslands er svo miklu meira en tónleikar á hverju fimmtudagskvöldi. Hún er öflugasti boðberi klassískrar tónlistar á Íslandi og gegnir þannig mikilvægu hlutverki í tónlistarfræðslu og eflir áhuga á klassískri tónlist. Hljómsveitin hefur á undanförnum árum leitast við að byggja brýr til fjölmargra hópa, ungs fólks og fullorðinna, til að greiða þeim leiðina að klassískri tónlist og færa heim sanninn um að klassíkin er sannarlega okkar allra,“ segir í ávarpi forseta sem lesa má í heild sinni hér.

Stórvirki úr tónlistarsögunni

Á afmælistónleikunum lék hljómsveitin stórvirki úr tónlistarsögunni undir stjórn Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Með hljómsveitinni komu fram Kór Hallgrímskirkju og Kór Langholtskirkju og frumfluttu Darraðarljóð eftir Jón Leifs en tónleikarnir hófust á hátíðarforleik eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Einleikari var Víkingur Heiðar sem flutti fimmta píanókonsert Beethovens og tónleikunum lauk með flutningi á Ein Heldenleben eftir Richard Strauss.

Tónleikaskrána má nálgast hér.

Afmælistónleikarnir voru haldnir tvisvar og var þeim seinni sjónvarpað í beinni útsendingu á RÚV föstudaginn 7. mars. Sjá má upptökuna hér.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar