• Forsetahjón boðin velkomin við lendingu á Hornafjarðarflugvelli. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Una Sighvatsdóttir
  • Tvíburasysturnar Rökkva Módís og Ronja Mardís Þorgrímsdætur, 6 ára, færðu forseta blóm við lendingu á Hofnarfjarðarflugvelli.Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Una Sighvatsdóttir
  • Forsetahjón ásamt nemendum Grunnskóla Hornafjarðar. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Una Sighvatsdóttir
  • Forsetahjón ásamt Félagi eldri Hornfirðinga. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Una Sighvatsdóttir
Fréttir | 12. mars 2025

Fyrri dagur Hornafjarðarheimsóknar

Forsetahjón hefja sína fyrstu opinberu heimsókn innanlands á Höfn í Hornafirði. Ferðin stendur í tvo daga og á fyrri deginum heimsóttu forsetahjón helstu stofnanir og fyrirtæki í þéttbýlinu á Höfn í Hornafirði.

Ánægjulegt að sjá mikla uppbyggingu í bænum

Á hátíðarsamkomu með íbúum sveitarfélagsins í lok dags sagði forseti að þau hjónin hafi verið full tilhlökkunar að koma á Hornafjörð enda opinber heimsókn staðið lengi til. Bersýnilegt sé að Hornafjörður iði af lífi og sköpunarkrafti og þeim hafi komið ánægjulega á óvart að sjá hve mikil uppbygging sé í bænum.

„Nánast hvar sem við förum eru ummerki vaxtar og umbóta, hvort sem um ræðir kaup á nýjum tækjabúnaði hjá björgunarsveitinni, endurnýjaða menningarmiðstöð í Sindrabæ, nýja frystigeymslu við höfnina eða nýjan leikskóla svo ekki sé minnst á glæsilegt dvalarheimili þar sem elsta kynslóð Hornfirðinga fær að lifa sitt ævikvöld með sæmd eftir að hafa skilað ærnu verki,“ sagði forseti í hátíðarávarpi sínu sem lesa má í fullri lengd hér.

Allar kynslóðir Hornfirðinga heimsóttar

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri tók á móti forsetahjónum á Hornafjarðarflugvelli ásamt fulltrúum bæjarráðs. Þá afhentu tvíburasysturnar Rökkva Módís og Ronja Mardís Þorgrímsdætur, 6 ára, forseta blómvönd á flugvellinum til að bjóða hana velkomna í sveitarfélagið. 

Fyrir hádegi var Grunnskóli Hornafjarðar heimsóttur, einnig leikskólinn Sjónarhóll og loks hjúkrunarheimilið Skjólgarður. Auk þess var farin vettvangsferð um nýja hjúkrunarheimilið sem tekið verður í notkun í sumar. Forsetahjón snæddu síðan hádegisverð á Ekru með félagsmönnum í Félagi eldri Hornfirðinga.

Eftir hádegi kynntu forsetahjón sér atvinnu- og menningarlíf á Höfn. Þau heimsóttu sjávarútvegsfyrirtækið Skinney – Þinganes hf og bruggsmiðjuna Heppu við höfnina. Því næst fengu þau kynningu á kraftmiklu starfi Björgunarfélags Hornafjarðar og mikilli uppbyggingu sem felst m.a. í kaupum á nýju björgunarskipi, framkvæmdum við nýja björgunarmiðstöð og smíði á öflugasta björgunarjeppa landsins sem tekinn var í notkun síðasta haust.

Þaðan fóru forsetahjón í hið fornfræga samkomuhús Sindrabæ sem verið er að endurnýja sem menningarmiðstöð. Þá heimsóttu þau Svavarssafn, listasafn Svavars Guðnasonar og þekkingarsetrið Nýheima en þar er suðupottur stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi. 

Í Nýheimum var boðið til kaffisamsætis þar sem öllum íbúum sveitarfélagsins var boðið að koma og hitta forsetahjón. Kvenfélagið Vaka annaðist veitingar og nemendur Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu komu fram með tónlistaratriði.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar