Forsetahjón fara í sína fyrstu opinberu heimsókn innanlands á Höfn í Hornafirði. Þar tók bæjarstjórn á móti forsetahjónum og kynnti þeim mannlífið og margvíslega uppbyggingu á svæðinu. Ferðin stóð í tvo daga og á fyrri deginum heimsóttu forsetahjón helstu stofnanir og fyrirtæki í þéttbýlinu á Höfn í Hornafirði, en á seinni deginum var farið um Suðursveit og Öræfi.
Myndasafn frá opinberri heimsókn forsetahjóna í Hornafjörð.
Ánægjulegt að sjá mikla uppbyggingu
Á hátíðarsamkomu með íbúum sveitarfélagsins í þekkingarsetrinu Nýheimum á Höfn sagði forseti að þau hjónin hafi verið full tilhlökkunar að koma á Hornafjörð enda opinber heimsókn staðið lengi til. Bersýnilegt sé að Hornafjörður iði af lífi og sköpunarkrafti og þeim hafi komið ánægjulega á óvart að sjá hve mikil uppbygging sé í bænum.
„Nánast hvar sem við förum eru ummerki vaxtar og umbóta, hvort sem um ræðir kaup á nýjum tækjabúnaði hjá björgunarsveitinni, endurnýjaða menningarmiðstöð í Sindrabæ, nýja frystigeymslu við höfnina eða nýjan leikskóla svo ekki sé minnst á glæsilegt dvalarheimili þar sem elsta kynslóð Hornfirðinga fær að lifa sitt ævikvöld með sæmd eftir að hafa skilað ærnu verki,“ sagði forseti í hátíðarávarpi sínu sem lesa má í fullri lengd hér.
Á samkomunni færði forseti sveitarfélaginu að gjöf ljósmynd frá Höfn í opinberrri heimsókn þáverandi forseta Íslands, Ásgeir Ásgeirssonar, og eiginkonu hans, Dóru Þórhallsdóttur, til Austur-Skaftafellssýslu sumarið 1958. Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari. „Það ergaman að rýna í ljósmyndir, sem teknar voru í þeirri heimsókn, og sjá hve staðhættir hafa gjörbreyst. Eitt hefur þó ekki breyst og það eru hlýjar móttökur ykkar Hornfirðinga,“ sagði forseti þegar hún afhenti bæjarstjóra ljósmyndina innrammaða.
Allar kynslóðir Hornfirðinga heimsóttar
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri tók á móti forsetahjónum á Hornafjarðarflugvelli að morgni miðvikudagsins 12. mars ásamt fulltrúum bæjarráðs. Þar afhentu líka tvíburasysturnar Rökkva Módís og Ronja Mardís Þorgrímsdætur, 6 ára, forseta blómvönd til að bjóða hana velkomna í sveitarfélagið. Þaðan var haldið í Gömlubúð þar sem bæjarstjórn bauð til morgunkaffis og stuttrar kynningar á sveitarfélaginu. Gamlabúð var aðalverslunarhúsið á Höfn frá upphafi byggðar árið 1937 en er nú fjölnýtt undir ýmsa starfsemi, meðal annars sem upplýsingamiðstöð ferðamanna.
Fyrir hádegi var Grunnskóli Hornafjarðar heimsóttur, þar sem Þórdís Þórsdóttir skólastjóri tók á móti forsetahjónum ásamt fulltrúum nemenda. Forsetahjón fengu kynningu á list- og verkgreinahúsinu Vöruhúsinu, gengu í skólastofur og hittu loks alla nemendur í íþróttasalnum þar sem forseta svaraði spurningum.
Leikskólinn Sjónarhóll var heimsóttur næst og loks hjúkrunarheimilið Skjólgarður þar sem forsetahjón ræddu við íbúa. Auk þess var farin vettvangsferð um nýja hjúkrunarheimilið sem er í byggingu og tekið verður í notkun í sumar. Forsetahjón snæddu síðan hádegisverð á Ekru með félagsmönnum í Félagi eldri Hornfirðinga. Formaður félagsins, Ari Jónsson, bauð forsetahjón velkomin með stuttri tölu og þá var hlýtt á lifandi tónlist.
Eftir hádegi kynntu forsetahjón sér atvinnu- og menningarlíf á Höfn. Þau heimsóttu fyrst sjávarútvegsfyrirtækið Skinney – Þinganes hf. þar sem Aðalsteinn Ingólfsson forstjóri og Ásgeir Gunnarsson framkvæmdastjóri fræddu þau um starfsemina og nýsköpunarverkefni með áherslu á samfélagslega ábyrgð. Þá ræddi forseti við starfsfólk vinnslunnar á sal og svaraði spurningum þeirra.
Næst heimsóttur forsetahjón bruggsmiðjuna Heppu við höfnina. Þorgrímur Tjörvi, eigandi fyrirtækisins, sagði þeim frá frumkvöðlastarfi þar bæði í matvælaframleiðslu, veitingarekstri og menningarstarfsemi.
Því næst fengu forsetahjón kynningu á kraftmiklu starfi Björgunarfélags Hornafjarðar og mikilli uppbyggingu sem felst m.a. í kaupum á nýju björgunarskipi, framkvæmdum við nýja björgunarmiðstöð og smíði á öflugasta björgunarjeppa landsins sem tekinn var í notkun síðasta haust. Slökkvilið Hornafjarðar var einnig heimsótt og nýr slökkviliðsbíll skoðaður.
Þaðan fóru forsetahjón í hið fornfræga samkomuhús Sindrabæ sem verið er að endurnýja sem menningarmiðstöð og sagði Bartek Andresson Kass, sviðsstjóri mannvirkjasviðs, frá framkvæmdinni. Forsetahjónum var svo boðið upp á tónlistaratriði frá Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu. Forsetahjón heimsóttu einnig Svavarssafn, listasafn Svavars Guðnasonar og þekkingarsetrið Nýheima en þar er suðupottur stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi.
Í Nýheimum var boðið til kaffisamsætis þar sem öllum íbúum sveitarfélagsins var boðið að koma og hitta forsetahjón. Kvenfélagið Vaka annaðist veitingar og nemendur Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu komu fram með tónlistaratriði.
Um kvöldið bauð bæjarstjórnin til hátíðarkvöldverðar forsetahjónum til heiðurs á veitingastaðnum Pakkhúsinu, þar sem leikfélag Hornafjarðar tróð upp með atriði úr söngleiknum Hárinu sem senn verður frumsýndur á Höfn.
Suðursveit og Öræfi
Á öðrum degi hinnar opinberu heimsóknar yfirgáfu forsetahjón þéttbýlið og hófst dagurinn við Hoffell. Ekið var inn að Hoffellslóni, þar sem forsetahjón fengu kynningu á viðamiklum uppbyggingaráformum Bláa lónsins.
Þaðan var ekið að kúabúinu Flatey á Mýrum þar sem bústjórarnir Birgir Freyr Ragnarsson og Vilborg Rún Guðmundsdóttir kynntu forsetahjónum starfsemina.
Næsti áningarstaður var á Hala í Suðursveit. Forsetahjón ræddu við ábúendur þar um breytta staðarhætti og vaxandi ferðaþjónustu og skoðuðu Þórbergssetrið. Þaðan var farið í Jökulsárlón á Breiðamerkursandi og fengu forsetahjón þar kynningu á aðstöðunni og starfi landvarða, en um ein milljón ferðamanna heimsækir lónið á ári hverju. Hádegisverður var svo snæddur á Hótel Jökulsárlóni, sem opnað var á Reynivöllum haustið 2024, og var íbúum Suðursveitar boðið að hitta forsetahjón þar og snæða með þeim.
Eftir hádegi var farið í Öræfasveit þar sem forsetahjón heimsóttu minnsta grunn-og leikskóla landsins að Hofgarði og ræddu við nemendur og kennara þar. Ferðinni lauk svo með kaffisamsæti í Hofgarði fyrir íbúa Öræfasveitar.