• Forsetahjón með norsku konungsfjölskyldunni fyrir hátíðarkvöldverð í Óslóarhöll. Ljósmynd: Ola Vatn, Det kongelige hoff
  • Forsetahjón ásamt konungsfjölskyldunni í höllinni í Ósló. Ljósmynd: krifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Konungshöllin í Ósló. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forsetahjón koma í konungshöllina í fylgd Hákon krónprins. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti skoðar heiðursvörð norska hersins í fylgd Hákonar krónprins. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti skoðar heiðursvörð norska hersins í fylgd Hákonar krónprins. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti og Haraldur V. Noregskonungur hlýða á þjóðsöngva Íslands og Noregs að viðstöddum heiðursverði við konungshöllina í Ósló. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Haraldur V. Noregskonungur fylgir forseta inn i Óslóarhöll. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forsetahjón skiptast á gjöfum við norsku konungshjónin og krónprinshjónin. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti ræðir við Harald V. Noregskonung. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forsetahjón ásamt norsku konungshjónunum, Haraldi V. konungi og Sonju drottningu. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti ásamt Haraldi V. Noregskonungi í Óslóarhöll. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forsetahjón og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í norska Stórþinginu að loknum fundi með forseta þingsins, Masud Gharahkhani. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti skrifar í gestabók norska Stórþingsins að viðstöddu forseta þingsins, Masud Gharahkhani. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti ásamt Hákoni krónprins Noregs. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • blómkrans frá íslensku þjóðinni að minnismerki um fallna Norðmenn við Akershusvirki. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti ásamt Haraldi V. Noregskonungi við hátíðarkvöldverð í Óslóarhöll. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Forseti flytur borðræðu sína við hátíðarkvöldverð í Óslóarhöll. Ljósmynd: Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
  • Björn Skúlason ræðir við Sonju drottningu. Skrifstofa forseta Íslands/Myriam Marti og FS Foto
Fréttir | 08. apr. 2025

Konunglegar móttökur í Ósló

Forsetahjón hefja þriggja daga ríkisheimsókn sína til Noregs. Dagskráin hófst með formlegri móttökuathöfn að viðstöddum heiðursverði við konungshöllina í miðborg Óslóar. Henni lauk með hátíðarkvöldverði í höllinni forseta til heiðurs. Borðræðu forseta má lesa hér.

Gestgjafar forsetahjóna í Noregi eru Haraldur V. konungur og Sonja drottning ásamt Hákoni krónprins og Mette-Marit krónprinsessu. Að auki tekur elsta dóttir þeirra, Ingrid Alexandra prinsessa, þátt í sinni fyrstu ríkisheimsókn. Því voru þrjár kynslóðir norsku konungsfjölskyldunnar viðstaddar móttökuathöfn forsetahjóna við Óslóarhöll.

Þar voru þjóðsöngvar beggja landa leiknir og forseti gekk og skoðaði heiðursvörð. Þá gáfu bæði forsetahjón og krónprinshjónin sér góða stund til að ræða við Íslendinga búsetta í Noregi og Norðmenn sem safnast höfðu saman við höllina af þessu tilefni.

Íslenskur skáldskapur og ullarteppi

Í höllinni skiptust forsetahjón á gjöfum við konungsfjölskyldunna. Konungshjónunum og krónprinshjónunum voru meðal annars færð teppi úr íslenskri ull, lopavettlingar og ljóðabókin Urta eftir Gerði Kristnýju í norskri þýðingu Knut Ødegård. Frá höllinni var farið að Akershusvirki þar sem forseti lagði blómkrans frá íslensku þjóðinni að minnismerki um Norðmenn sem féllu í síðari heimsstyrjöld.

Forseti heimsótti að því loknu norska Stórþingið og átti þar fund, ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra, með forseta þingsins, Masud Gharahkhani. Eftir hádegi var viðburður í viðskiptaháskólanum BI Norwegian Business School þar sem forseti ræddi við nemendur, starfsfólk og aðra áheyrendur um ábyrga forystu.

Forseti ávarpaði höllina á íslensku

Fyrsta degi ríkisheimsóknar lauk með hátíðarkvöldverði í konungshöllinni til heiðurs forseta Íslands. Í borðræðu sinni þakkaði forseti konungsfjölskyldunni fyrir boðið  og fyrir að mega heimsækja vinaþjóð sem Íslendingar bæði virði og þyki vænt um. 

„Þótt við séum að sumu leyti ólík, þá eru tengsl norsku og íslensku þjóðanna einstök – við erum runnin af sömu rót og saga okkar samofin. Íslendingar sóttu strax í upphafi mikið til Noregs og enn þykir Íslendingum nærtækt að leita til Noregs til viðskipta eða dvalar," sagði í ræðu forseta.

Þá vék forseti að sameiginlegum gildum í samfélagsgerð Norðurlanda, sem hafi sýnt að hægt sé að byggja upp réttlátt og friðsælt samfélag þar sem jafnrétti og virðing fyrir fólki og náttúru eru höfð að leiðarljósi. 

„Norræna módelið gengur upp, við setjum fordæmi sem vert er að fara eftir. Við höfum náð frábærum árangri í velsæld og vermum þar efstu sæti heims. Með því að sameina raddir okkar og krafta enn betur getum við aukið áhrifamátt Norðurlanda til góðs á tvísýnum tímum."

Forseti flutti borðræðu sína á íslensku, fyrst forseta í ríkisheimsókn á Norðurlöndum. „Íslenska stendur næst þeim tungum sem talaðar voru á Norðurlöndum til forna. Á Íslendingum hvílir því sú ábyrgð að viðhalda íslenskunni, ekki aðeins sem móðurmáli með öllu sem því fylgir fyrir þjóð, heldur einnig til að gæta sameiginlegrar arfleifðar norrænna þjóða," sagði í borðræðu forseta sem lesa má í fullri lengd hér.

Sjá einnig facebókarpistil forseta: Íslensk tunga í Noregi.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar