Forsetahjón og Hákon, krónprins Noregs, sækja bókmenntaviðburð sem helgaður er bókmenntaarfi Íslands og Noregs og ljóðlist beggja landa. Viðuburðurinn var hluti af dagskrá ríkisheimsóknar forsetahjóna til Noregs og fór hann fram í Óslóarháskóla. Forseti fékk þar einnig tækifæri til að ræða við íslenska nemendur við skólann.
Á viðburðinum komu fram skáldin og rithöfundarnir Gerður Kristný, Knut Ødegård og Metta Karlsvik, sem eiga það sameiginlegt að hafa öll sótt innblástur fyrir ljóðlist sína til Eddukvæða. Halldór Guðmundsson rithöfundur og útgefandi var fundarstjóri. Á viðburðinum lásu skáldin upp úr ljóðum sínum bæði á íslensku og á norsku. Þá ræddu skáldin um sameiginlegan bókmenntaarf þjóðanna, þann innblástur sem Snorra-Edda er enn í nútímamenningu og skiptust á skoðunum um áskoranir við að þýða ljóðlist milli tungumála.
Viðburðinn sóttu fulltrúar bókaútgáfu og akademíu í Noregi auk nemenda Óslóarháskóla. Þar var einnig kynning á Norsku bókmenntahátíðinni sem fram fer í Lillehammer í júní en þar verða Íslendingasögurnar og íslenskar bókmenntir í lykilhlutverki.
Að viðburðinum stóð meðal annars Norska menningarráðið, fyrir tilstilli sjóðs sem stofnað var til árið 1994 í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Haraldur V. Noregskonungur sótti þá Ísland heim og tilkynnti ákvörðun norskr stjórnvalda um að leggja til árlegt framlag til norsks-íslensks menningarsamstarfs.