Forsetahjón heimsækja Þrándheim í fylgd Hákons, krónprins Noregs. Heimsóknin var liður í dagskrá þriggja daga ríkisheimsóknar forseta til Noregs. Í Þrándheimi var sjónum meðal annars beint að viðskiptum og rannsóknasamstarfi í sjávarútvegi, menningu og varnarmál.
Meðal annars heimsóttu forsetahjón og krónprinsinn hina sögufrægu Niðarósdómkirkju í miðborg Þrándheims. Elstu hlutar kirkjunnar eru um 850 ára gamlir og á hún rætur djúpt í sameiginlegri sögu Íslands og Noregs. Herborg Finnset biskup fræddi gestina um sögu kirkjunnar og sýndi þeim háaltarið. Þá kom stúlknakór Niðarósdómkirkju fram og söng nokkra sálma, þar á meðal Heyr, himna smiður eftir Kolbein Tumason, sem er elsti varðveitti sálmur Norðurlanda.
Í gestastofu kirkjunnar var saman kominn hópur Íslendinga sem búsettir eru í Þrándheimi og gafst forsetahjónum færi á að ræða við þau, ásamt Hákoni krónprinsi. Þá bauð borgarstjóri Þrándheims, Kent Ranum, til hádegisverðar forseta Íslands til heiður. Ranum gegndi áður stöðu ræðismanns Íslands í Noregi.
Viðskiptaþing og varnarmál
Í Þrándheimi fór einnig fram viðskiptaþing á vegum norsku vísinda- og tæknistofnunarinnar NTNU og rannsóknarstofnunarinnar SINTEF, í samstarfi við Innovation Norway og Business Iceland. Viðburðinn sóttu fulltrúar úr íslensku- og norsku viðskiptalífi og sjávarútvegi.
Ferðinni til Þrándheims lauk með heimsókn til heimavarnardeildar norska hersins í Værnes þar sem forsetahjónum og krónprinsi var þjálfunar- og endurhæfingarverkefni sem Norðmenn bjóða fyrir úkraínska hermenn.
Hákon krónprins kvaddi forsetahjón formlega í Þrándheimi og héldu þau þaðan heim til Íslands að lokinni þriggja daga ríkisheimsókn.