Forseti skrifar kveðju á 95 ára afmæli Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Vigdís fæddist í Reykjavík þann 15. apríl 1930 og gegndi embætti forseta Íslands árin 1980-1996. Grein forseta birtist í fylgiriti Morgunblaðsins sem gefið er út í dag, Vigdísi til heiðurs. Greinina má lesa hér:
------
Það var vorblær í lofti þó komið væri undir lok júní þegar Íslendingar skunduðu á Þingvöll árið 1930 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun Alþingis 930. Vorblær í lofti, því á hátíðinni var Ísland að springa út frammi fyrir umheiminum í fyrsta sinn. Myndlistarmenn sýndu verk sín og lögð var rík áhersla á sköpun og flutning ljóð- og tónlistar fyrir hátíðina. Undirbúningur hafði staðið í mörg ár – ung og fullvalda þjóð að treysta á mátt sinn og megin í fyrsta sinn. Það sem hátíðargestir vissu þó ekki var að fyrr um vorið hafði fæðst í Reykjavík stúlka sem síðar myndi bera hróður þjóðarinnar hvað víðast, Vigdís Finnbogadóttir.
Sjálf get ég vart fært það í orð hversu mikið ég á Vigdísi að þakka fyrir brautryðjandastarf hennar á sviði jafnréttis – og um leið fyrir að koma Íslandi á kortið á grundvelli þess sama. Hvar sem ég hef komið í heiminum er nafn Vigdísar þekkt og þannig hefur hún greitt götu okkar allra. Þegar ég fór ung út í heim til náms og starfa hvarflaði stundum að mér sú hugsun að kannski væri ég komin fram úr sjálfri mér, ung kona í karllægum heimi viðskipta og stjórnmála, frá afskekktri eyju í norðurhöfum. En í sömu andrá hurfu þær efasemdir þegar ég hugsaði til Vigdísar sem sannarlega hefur blásið mér byr í brjóst frá því ég var barn að aldri.
Ég var ellefu ára þegar Vigdís var kjörin forseti og ég man það eins og gerst hafi í gær. Hún setti mál á dagskrá sem þá þóttu eiga lítið erindi í opinbera umræðu: Auk jafnréttismálanna má þar nefna náttúruvernd og kærleika í samskiptum. Öll þessi áherslumál birtust svo á táknrænan hátt í þeim sið hennar að gróðursetja tré í tilefni af heimsóknum erlendra gesta. Eitt tré fyrir stelpur, annað fyrir stráka og það þriðja fyrir framtíðina. Barátta Vigdísar til verndar íslenskri tungu var einnig mikið brautryðjandastarf, ekki einungis tungumálsins vegna, heldur einnig í stærra samhengi: að bera virðingu fyrir eigin tungumáli og sérkennum er grundvöllur sjálfsvirðingar og varðveislu menningar, sama hvar hún er í veröldinni. Að mínu mati hefur sú barátta aldrei verið mikilvægari en nú, þegar sköpun fer sífellt meira fram á forsendum tækninnar og margvísleg sérkenni verða hagræðingu að bráð.
Vigdís sýndi og sannaði hversu mikil áhrif má hafa með því að beita mjúku valdi. Miklu má áorka með orðfæri, kærleika og innilegum tengslum við fólk. Þeim fræjum hafði Vigdís sáð löngu áður en hún var kjörin forseti. Hún heillaði fólk með því að vera hún sjálf, óhrædd við að fara eigin leiðir. Ekki síst hefur verið öðrum innblástur hvernig hún tókst á við persónulegt mótlæti. Hið mjúka vald felst nefnilega ekki síður í því ósagða og allt umlykjandi. Á tímum þar sem harka hefur færst í samskipti þjóða er gott að hafa í huga að þó að mýktin virðist ekki eiga upp á pallborðið þessa stundina, þá sigrar hún alltaf að lokum því áhrif hennar vara lengur.
Þjóðarleiðtogar koma og fara en áhrif Vigdísar Finnbogadóttur vara áfram og eru síst minni í dag en þegar hún gegndi embætti forseta. Það sannaðist á ný í byrjun árs þegar Ríkissjónvarpið sýndi þáttaröð um ævi hennar og störf fram að forsetakjöri. Þá fengu nýjar kynslóðir tækifæri til að sjá hversu miklu hefur verið áorkað á sviði jafnréttis og hversu miklum samfélagsbreytingum má ná fram með hugrekkið eitt að vopni. Vigdís áorkaði vissulega miklu sem forseti en einnig með lífshlaupi sínu öllu með því að vera öðrum fyrirmynd og hvatning.
Mary Robinson, sem kjörin var forseti Írlands fyrst kvenna árið 1990, hefur sagt mér hversu mikil fyrirmynd Vigdís var fyrir hana. Ég naut þeirrar ánægju að fylgja Mary í heimsókn til Vigdísar og Vigdísarstofnunar fyrir nokkrum árum og varð vitni að þeirri virðingu sem enn ríkir á milli þeirra. Sú virðing var líka auðfundin í samtali mínu við Margréti Þórhildi Danadrottningu síðasta haust.
Þegar við stofnuðum fyrirtækið Auði Capital nefndum við eitt fundarherbergið Vigdísarstofu. Á vegg herbergisins hékk ljósmyndin af Vigdísi í prjónakjólnum sem tekin var á svölunum heima hjá henni morguninn eftir sigur hennar í forsetakosningunum – augnablik sem táknar nýtt upphaf, bæði fyrir hana og íslensku þjóðina. Sú mynd hefur fylgt mér á heimilum mínum bæði hérlendis og erlendis og alltaf vekur hún jákvæð hughrif hjá gestum sem hrífast af sögu Vigdísar.
Nú eru liðin 95 ár frá vorinu blíða árið 1930. Þá var veröldin okkar smá en líkt og blómknappur þá átti hún eftir að springa út. Ég vil fá að þakka þér, Vigdís Finnbogadóttir, fyrir ómetanlegt framlag þitt í gegnum tíðina – fyrir kærleika þinn og alúð, hugrekki og mýkt. Til hamingju með daginn!
Birt í Morgunblaðinu 15. apríl 2025.