Saga Bessastaða
Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga.
Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Árið 1805 fluttist Hólavallaskóli, eini lærði skóli landsins, til Bessastaða og hlaut þá heitið Bessastaðaskóli. Hann starfaði þar til 1846 að hann flutti til Reykjavíkur; á þeim árum sóttu skólann m.a. Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þar sleit skáldið Benedikt Gröndal barnsskónum eins og hann lýsir í Dægradvöl. 1867 eignaðist skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen Bessastaði og bjó þar tæpa tvo áratugi. Eftir að hann lést árið 1896 keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms, Jakobínu Jónsdóttur. Skúli Thoroddsen, ritstjóri og alþingismaður, og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona keyptu Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908 og áttu jörðina þar til Skúli lést árið 1916. Jón H. Þorbergsson bóndi bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni, Elínu Vigfúsdóttur, á árunum 1917-28 og því næst hjónin Björgúlfur Ólafsson læknir og Þórunn Benediktsdóttir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.
Grein frá 1946 um búskapinn á Bessastöðum (úr Frey).