Guðni Th. Jóhannesson
Sjötti forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968. Hann er sonur hjónanna Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og landsliðsþjálfara, sem lést árið 1983.
Guðni útskrifaðist árið 1987 með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann stundaði nám í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu árið 1991. Eftir það lærði hann þýsku við Háskólann í Bonn í Þýskalandi. Hann nam rússnesku á árunum 1993-1994 við Háskóla Íslands. Guðni útskrifaðist með meistaragráðu í sagnfræði frá HÍ árið 1997. Hann nam sagnfræði á árunum 1998-1999 við Oxfordháskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan árið 1999 með MSt-gráðu í sögu. Árið 2003 lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá Queen Mary, University of London.
Guðni er kvæntur Elizu Reid og kynntust þau á námsárum sínum við Oxford-háskóla á Englandi. Eliza er frá Kanada og lauk prófgráðum í nútímasögu í Oxford og í alþjóðasamskiptum við Torontoháskóla. Guðni og Eliza hafa verið búsett hérlendis frá árinu 2003. Börn þeirra eru Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Guðni á dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu.
Á árunum 2013-2016 var Guðni kennari í sagnfræði við Háskóla Íslands, lektor, dósent og síðast prófessor, skömmu áður en hann tók við embætti forseta Íslands. Áður var hann lektor við Háskólann í Reykjavík og stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og University of London. Jafnframt vann hann um árabil við afleysingar á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Guðni hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um sögu þorskastríðanna, um forsetaembættið, um embættistíð Kristjáns Eldjárns forseta Íslands, ævisögu Gunnars Thoroddsens og bókina Óvinir ríkisins en tvær þær síðastnefndu voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Að auki hefur Guðni skrifað fjölda fræðigreina um sögu Íslands og samtíð og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir fræðistörf sín. Árið 2017 var hann sæmdur nafnbót heiðursdoktors við Queen Mary University of London og árið 2024 hlaut hann sömu nafnbót við Háskólann í Oulu í Finnlandi.
Myndasyrpa frá forsetatíð Guðna Th. Jóhannessonar.
Vefsíða embættis forseta Íslands í tíð Guðna Th. Jóhannessonar.
Innsetningarræður
Áramótaávörp
- 01.01.2024 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2024
- 01.01.2023 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2023
- 01.01.2022 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2022
- 01.01.2021 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2021
- 01.01.2020 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2020
- 01.01.2019 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2019
- 01.01.2018 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2018
- 01.01.2017 Nýársávarp Guðna Th. Jóhannessonar 1. janúar 2017