Fréttapistill | 21. feb. 2022

Válegir tímar

Um nýliðna helgi hlotnaðist mér sá heiður að afhenda Íslensku þýðingaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Í ár komu verðlaunin í hlut Gunnars Þorra Péturssonar fyrir þýðingu hans á verki Svetlönu Aleksíevítsj, Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll.

Sú bók er magnþrungin lýsing á kjarnorkuslysinu í Tsjernobyl árið 1986, byggð á frásögnum fólks sem þar kemur við sögu. Við lesturinn hljótum við að finna til með þeim sem þjást og fyllast jafnvel andúð á þeim sem gera illt verra. Undir lok ávarps míns við afhendingu verðlaunanna komst ég svo að orði:

„Við lifum á válegum tímum. Lifum við kannski alltaf á válegum tímum? Líklega kennir sagan okkur það en nú um stundir er mikil spenna í lofti, nokkuð nærri vettvangi Tsjernobyl-slyssins. Vonir okkar hljóta að standa til þess að blóðugum átökum verði afstýrt, að valdhafar hvarvetna velji viðræður frekar en hótanir, sáttfýsi frekar en þvermóðsku, frið frekar en stríð.“

Fyrr um helgina naut ég listar af öðru tagi, sýningar Leikfélags Keflavíkur á söngleiknum Fyrsti kossinn. Þar var líf og fjör og þakka ég kærlega fyrir mig. Í nýliðinni viku tók ég einnig á móti erlendum sendiherrum og má finna frekari upplýsingar um það og önnur embættisverk á vefsíðu forsetaembættisins. Góðar stundir.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

  • Á Gljúfrasteini við afhendingu Íslensku þýðingaverðlaunanna, sem féllu í skaut Gunnari Þorra Péturssyni fyrir þýðingu hans á Tsjernobyl-bæninni, framtíðarannál eftir Svetlönu Aleksíevítsj.
  • Eftir sýningu Leikfélags Keflavíkur á söngleiknum Fyrsti kossinn.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar