Fréttapistill | 13. nóv. 2022

Fyrirlestraferð til Bandaríkjanna

Nú er lokið ferð minni á austurströnd Bandaríkjanna. Ytra flutti ég fyrirlestra, ræddi aukið samstarf við Ísland á sviði mennta, jarðhita og fleiri sviða og kynnti land og þjóð fyrir heimafólki.

Fyrst lá leiðin til Dartmouth College. Þar flutti ég Minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar í boði norðurslóðaseturs þar og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Síðan var ég í Williams College og ræddi þar fyrir opnum tjöldum við Magnús Þorkel Bernharðsson prófessor um sögu Íslands og samtíð. Að lokum var ég með erindi í Cornell University og fór þar að auki fyrir sendinefnd Íslendinga sem vilja vinna með yfirvöldum þar að nýtingu jarðhita. Var skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, var einnig með í för og horfir vel til með nemendaskipti og annað samstarf HR og Cornell. Þar naut ég þess einnig mjög að kynna mér á ný safn íslenskra bóka, nýrra sem fornra, sem Íslandsvinurinn Willard Fiske stofnaði til á sinni tíð.

Í máli mínu ytra gerði ég stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu ætíð að umtalsefni. Ég lýsti því að við gætum snúið smæð okkar í styrk og nefndi þætti sem við getum stært okkur af, til dæmis velmegun og ýmsar framfarir, kunnáttu í nýtingu grænnar orku og skref í átt að kynjajafnrétti. En ég lagði líka áherslu á að við mættum ekki draga upp glansmynd sem stæðist ekki skoðun – það myndi engum gagnast og allra síst okkur sjálfum. Þannig nefndi ég að smæðin væri líka til trafala, gæti ýtt undir tortryggni, ótta og jafnvel minnimáttarkennd. Það hefði sést vel þegar íslenskir ráðamenn kröfðust þess að í bandarískum liðsafla á Íslandi á síðustu öld yrðu engir hörundsdökkir hermenn. Fleiri dæmi mætti nefna.

Í spurningum og samtölum við námsmenn og aðra í þessum virtu (og dýru) menntastofnunum kom vel fram hversu vinsælt Ísland er til ferðalaga nú um stundir.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar