Fréttapistill | 24. jan. 2023

Þegar eldgos hófst í Heimaey

Úti í Eyjum var þess minnst í gær að hálf öld er liðin frá upphafi eldgoss þar. Viðburðurinn var látlaus og fallegur, fjölmenn blysför frá Landakirkju að Eldheimum og minningarstund í því glæsilega safni. Við forsætisráðherra tókum þar til máls, auk bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum. Ég þakka gestrisni og góðvild heimamanna.

Þegar gosið hófst fyrir hálfri öld var þrekvirki unnið, nær öllum íbúum komið á fastalandið og þar bauðst húsaskjól. Samstundis hófust einnig björgunarstörf á Heimaey. Gott er að halda þessari sögu á lofti, fagna því sem vel gekk en ræða um leið hispurslaust alla þætti þessara hrikalegu náttúruhamfara og afleiðingar þeirra. Núna er blómlegt mannlíf í Eyjum og væntanlega ekki svo langt þar til íbúafjöldi verður meiri en hann var þegar eldgosið hófst 23. janúar 1973. Vestmannaeyjar munu rísa, sagði Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra skömmu eftir að eldsumbrotin hófust og það reyndust orð að sönnu.

Á meðan ég dvaldist á Heimaey tók ég einnig þátt í fundi um lýðræði með nemendum Framhaldsskóla Vestmannaeyja og þakka fjörlegar umræður þar. Þá kynnti ég mér þróunarverkefnið Kveikjum neistann í yngstu bekkjum Grunnskóla Vestmannaeyja og mæli hiklaust með því. Auk þess hitti ég íbúa og daggesti á dvalarheimilinu Hraunbúðir og hélt í Þekkingarsetur Vestmannaeyja þar sem frumkvöðlar og fleiri láta að sér í kveða í góðum félagsskap hvers annars.

Rúsínan í pylsuendanum var svo hressandi morgunskokk með tveimur öflugum Eyjamönnum og handboltaköppum, Magnúsi Bragasyni og Sigmari Þresti Óskarssyni. Ég hlakka til að heimsækja Eyjamenn á ný.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar