Fréttapistill | 02. júní 2024

Til hamingju með nýkjörinn forseta

Ég óska Höllu Tómasdóttur innilega til hamingju með sigurinn í nýliðnu forsetakjöri. Birni eiginmanni hennar, börnunum og fjölskyldunni allri færi ég einnig heillaóskir. Ég hef í dag sent Höllu bréf þess efnis sem lesa má á vefsíðu embættisins, forseti.is.

Um leið óska ég þjóðinni allri til hamingju með nýkjörinn forseta Íslands. Þá sendi ég öðrum frambjóðendum hlýjar kveðjur og ekki síður öllum þeim þúsundum sjálfboðaliða sem tóku þátt í mikilli lýðræðisveislu í aðdraganda kosninganna. Við Íslendingar njótum þeirra réttinda að geta kosið okkur þjóðhöfðingja. Síðan höfum við einatt borið gæfu til að sameinast um það forsetaefni sem varð hlutskarpast. Ég er viss um að sú verður áfram raunin. Megi Höllu Tómasdóttur farnast vel á vandasömum vettvangi, landi og þjóð til heilla.

Loks nota ég tækifærið á sjómannadegi og óska landsmönnum öllum til hamingju með daginn. Við búum í fallegu landi, í öflugu samfélagi, og megum horfa björtum augum fram á veg.

Myndin var tekin árið 2017 þegar við Eliza buðum Höllu og Birni til Bessastaða.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 2. júní 2024.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar